Rannsókn sérstaks saksóknara snýr að millifærslum af reikningi Landsbankans í Seðlabankanum yfir til MP banka og Straums vegna endurhverfra viðskipta við Seðlabankann. Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að 7,2 milljarðar voru millifærðir til Straums og 7,4 milljarðar króna til MP banka, samkvæmt heimildum blaðsins.

Einnig er til rannsóknar kaup bankans á bréfum í sjálfum sér og Straumi úr sjóðum Landsvaka fyrir tæpa 20 milljarða króna eftir að sjóðunum var lokað, að því er Fréttablaðið segir.

Húsleitir fóru fram á fimm stöðum í gær í tengslum við rannsókn sérstaks saksóknara á Landsbanka Íslands. Leitað var í húsakynnum MP banka, Straums, Seðlabankans, Landsvaka og Landsbankans.

Fjórir voru handteknir en ekki var farið fram á gæsluvarðhald eftir að yfirheyrslum lauk í gær. Þeir sem voru handteknir eru Jón Þorsteinn Oddleifsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri eignastýringar bankans, Þórir Örn Ingólfsson, fyrrverandi yfirmaður áhættustýringar, Hannes Júlíus Hafstein, fyrrverandi deildarstjóri fjárfestingarbanka á lögfræðisviði bankans, og Stefán Héðinn Stefánsson, fyrrverandi stjórnarformaður Landsvaka og núverandi aðstoðarforstjóri Saga fjárfestingarbanka, að því er kemur fram í Fréttablaðinu.