*

mánudagur, 19. apríl 2021
Innlent 1. janúar 2021 17:02

Nærri 150 ára saga í gullsmíðum

Hin níræða Dóra Jónsdóttir í Gullkistunni rekur fyrirtæki á enn eldri grunni. Framleiðir vinsælustu ferðamannagjöfina.

Höskuldur Marselíusarson
Íslandshringir föður Dóru Jónsdóttur gullsmiðs sem gerðir voru fyrir hermennina eru enn í framleiðslu hjá henni og reiknast henni til að þeir hafi verið vinsælasta ferðamannagjöfin til langs tíma.
Gígja Einarsdóttir

Starfsemi Gullkistunnar á Frakkastíg má rekja aftur til 8. áratugar 19. aldar, en Dóra Jónsdóttir gullsmiður hefur sjálf verið með eigin rekstur þar í 42 ár. Faðir hennar hóf að framleiða hringa fyrir ferðamenn sem hún telur vinsælustu ferðamannagjöfina til langs tíma en hún sjálf hefur átt ríkan þátt í að halda þjóðbúningahefðinni sterkri.

Dóra Jónsdóttir, gullsmiður í Gullkistunni á Frakkastíg, fagnaði 90 ára afmæli í lok nóvember, og færðu forystumenn Samtaka iðnaðarins henni blómvönd af því tilefni, en fyrirtæki hennar á ekki síður langa sögu og telst vafalaust eitt elsta iðnfyrirtæki landsins.

„Við vitum ekki alveg ártalið, en við reiknum með að það hafi verið opnað hér fyrst árið 1873, en það var Erlendur Magnússon gullsmiður sem hóf reksturinn í Þingholtsstræti 5 og rak hann þar alveg til dauðadags. Sonur hans Magnús Erlendsson, sem lærði hjá honum og vann með, hélt svo áfram með reksturinn eftir að faðir hans dó," segir Dóra sem sjálf byrjaði að læra hjá föður sínum, Jóni Dalmannssyni árið 1949, en hann keypti reksturinn af Magnúsi um 1930.

„Þegar ég flutti starfsemina svo hingað á Frakkastíg árið 1976 þá kom það af sjálfu sér að skipta um nafn og svoleiðis, og þar með varð Gullkistan í núverandi mynd til. Það hafa auðvitað verið töluverðar breytingar í þessu síðan, það eru alltaf tískusveiflur, en ef maður heldur í það gamla og leyfir því að fylgja með þá á það alveg samleið."

Þannig segir Dóra að smekkur fólks eftir skartgripum hafi breyst töluvert í gegnum áratugina. „Það kom tímabil þar sem skartgripir voru afskaplega smáir og efnislitlir getur maður sagt, þeir sáust varla. Svo komu önnur tímabil þar sem þeir voru miklu stærri og fyrirferðarmeiri. Í svona rekstri þurfum við auðvitað að haga seglum eftir vindi og við reynum að hanna skartgripina í stíl við tískuna hverju sinni og fylgja henni eftir," segir Dóra sem segir ekki mikið mál að fylgjast með tíðarandanum.

„Maður getur bara séð þetta í tölvunni, á tískumyndum og svona, þetta kemur einhvern veginn af sjálfu sér. Annað breytist síður, eins og í sumum fjölskyldum eru gefnar sérstakar fjölskyldugjafir niður kynslóðirnar, þar sem þær hafa látið hanna nælur eða ermahnappa eða eitthvað sérstakt fyrir þær einar."

Hermennirnir fyrstu ferðamennirnir

Dóra segir að alla tíð hafi hluti framleiðslunnar verið fyrir ferðamenn. „Faðir minn var alltaf með eitthvað fyrir ferðamenn á boðstólunum, en það voru til að byrja með hermennirnir. Þeir fóru að koma við og athuga hvað væri til, sumir vildu fá eitthvað sem þeir gætu sent heim, gefið mæðrum, eiginkonum eða kærustum," segir Dóra.

„Pabbi hannaði svokallaða Íslandshringa sem hermennirnir fóru að kaupa, en þeir eru með fallegu litlu Íslandskorti sem sett er ofan á hringinn. Þeir urðu afskaplega vinsælir, og ég er viss um að þetta hafi verið vinsælasta túristagjöfin í langan tíma, enda 80 ára gömul sígild hönnun sem hefur haldist alveg síðan í framleiðslu hérna hjá mér. Það er ekki svo langt síðan það kom maður hingað inn í búð til mín, var eiginlega svolítið vandræðalegur til að byrja með, talaði ensku en það er mesta furða hvað þeim finnst þeir skilja þegar ég reyni að tala hana.

Hann sagðist hafa verið hérna á stríðsárunum og keypt hring, en því miður tapað honum. Nú væri hann búinn að vera í nokkra daga á Íslandi og farið um allt en enginn kannast við svona hringa, og hann spurði hvort ég gæti nokkuð upplýst hann. Þá sýndi ég honum svona Íslandshring eins og pabbi minn hafði gert og spurði hvort það væri eitthvað svona sem hann væri að leita að, og hann hélt nú það. Þessi maður gerðist nokkurs konar leiðsögumaður hingað til lands og í hvert skipti sem hann kom með hóp þá kom hann við og náði í pöntun af Íslandshringum." 

Nánar má lesa um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem er nýkomið út. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér