Ríki og borg hafa gert með sér samkomulag um byggingu hjúkrunarheimilis í Reykjavík, en heildarkostnaður framkvæmdanna er áætlaður rúmir 2,9 milljarðar króna. Er það utan kostnaðar við búnaðarkaup.

Skrifuðu þeir Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri undir samkomulagið í dag, en borgin leggur heimilinu til lóð við Sléttuveg í Fossvogi.

Borgin mun jafnframt annast hönnun og verkframkvæmdir en skipting kostnaðar er þannig að 40% verður framlag úr Framkvæmdasjóði aldraða, 45% úr ríkissjóði og 15% frá Reykjavíkurborg.

Annað tveggja hjúkrunarheimila

Miðast kostnaðurinn við 100 hjúkrunarrými, en þau munu verða á bilinu 95-105.

Samkvæmt framkvæmdaáætlun heilbrigðisráðherra er þetta annað tveggja hjúkrunarheimila sem mun rísa á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum með samanlagt 204 hjúkrunarrýmum.

Annað á Seltjarnarnesi

Staðfesti Samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir áætlunina í byrjun árs, en áætlað er að hitt hjúkrunarheimilið muni rísa á Seltjarnarnesi.

Samhliða byggingu hjúkrunarheimilisins stendur Reykjavíkurborg að byggingu þjónustumiðstöðvar og íbúða fyrir aldraða sem verður innangengt við hjúkrunarheimilið, til að samnýta ýmsa aðstöðu í húsunum tveimur.