Við árslok 2019 námu heildareignir lífeyrissjóðanna 5.180 milljörðum íslenskra króna, eða nærri 5,2 billjónum króna, að því er Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur gefið út .

Heildareignir fjögurra stærstu sjóðanna, LSR, Lífeyrissjóðs verslunarmanna, Gildis og Birtu námu nærri 3 billjónum króna, eða 3.000 milljörðum króna, eða sem samsvarar um 57% af lífeyrissparnaði landsmanna. Jókst hlutfall þeirra um 0,4 prósentustig á árinu.

Á liðnu ári jókst lífeyrissparnaður landsmanna umtalsvert eða um 752 milljarða króna, sem samsvarar 17% aukningu, en þá er miðað við bæði í samtryggingu og í séreign.

Þriðjungur í erlendum eignum

Þar af nam aukning erlendra eigna 455 milljörðum króna, en í lok árs námu þær 1.672 milljörðum króna, sem samsvarar nærri 1/3 af heildareignum bæði samtryggingar og séreignasjóðanna, og hefur sú hlutdeild aldrei verið hærri.

Um 1.363 milljarðar af erlendu eignunum eru í verðbréfasjóðum, en um 229 milljarðar í hlutabréfum, en afkoma erlendu bréfanna er sögð hafa verið mjög hagfelld á árinu. Þannig hækkaði vísitala MSCI um 27% á árinu.

Í samtryggingarhlutanum voru við árslok um 4.439 milljarðar króna, og var þar aukning um 642 milljarða króna, en bráðabirgðatölur um raunávöxtun þessa hluta gefa vísbendingu um 12% ávöxtun á árinu, sem er sú mesta síðustu tvo áratugina, utan ársins 2005, þegar hún var 13,5%.

Heildareignir séreignasparnaðarins sem er í vörslu lífeyrissjóða og annarra innlendra vörsluaðila námu 742 milljörðum króna í árslok eftir 112 milljarða króna aukningu á árinu eða sem samsvarar 18%.