Samantekt Skattsins á álagningu opinberra gjalda fyrir síðasta ár sýnir að þau skiluðu 2,07% minni fjárhæð, eða ríflega 4 milljörðum króna minni, en árið þar áður, eða í heildina tæplega 190 milljörðum íslenskra króna..

Skilahlutfall framteljanda hækkaði milli ára úr tæplega 82% í tæplega 86% en rétt rúmlega 40 þúsund framtöl bárust fyrir lok álagningar. Í heildina eru 46.652 skattskyld félög á landinu en 17.567 lögaðilar sem eru undanþegnir tekjuskatti.

Gjöld 6.549 lögaðila voru áætluð sem er 14,04% lögaðila á skattgrunnskrá. Fyrir ári voru gjöld 18,04% lögaðila á skattgrunnskrá áætluð, en hafa ber í huga að álagning lögaðila fer nú fram mánuði síðar en í fyrra.

Heildarfjárhæð opinberra gjalda nam 189,7 milljörðum íslenskra króna, þar af var tryggingagjaldið veigamest eða 102,2 milljarðar króna, en tekjurnar af því jukust um 0,1% milli ára. Tekjuskattur var næst stærsti tekjuliðurinn með 68,2 milljarða króna, en hann dróst saman um 5,8% frá fyrra ári.

Bankaskattar skluðu nærri 17 milljörðum

Þriðji stærsti tekjuliðurinn var sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki, sem í daglegu tali er kallaður bankaskatturinn þó það sé einnig stundum notað yfir fleiri sérstaka skatta á fjármálafyrirtækin, en hann skilaði 10,9 milljörðum eftir 2,8% aukningu á árinu. Þess má geta að ríkisstjórnin hefur samþykkt þrepalækkun skattsins sem hófst á þessu ári til ársins 2023 svo þessi fjárhæð ætti að lækka á næsta ári.

Tekjur af Fjársýsluskatt lækkuðu svo um 0,9% milli ára og skilaði hann ríflega 3,2 milljörðum króna, en hinn svokallaði Sérsaki fjársýsluskatturinn lækkaði um heil 14% milli ára og nam tpælega 2,4 milljörðum króna. Um er að ræða 6% viðbótarskatt á tekjuskattstofn fjármálafyrirtækja umfram 1 milljarð. Samanlagt skiluðu þessir þrír skattar sem leggjast sérstaklega á fjármálafyrirtæki því um 16,6 milljörðum króna.

Loks skilaði Fjármagnstekjuskatturinn 10,2% meira í fyrra en árið áður, eða tæplega 2 milljörðum króna. Einnig hækkuðu tekjur af Útvarpsgjaldinu um 4,7%, í 769 milljónir króna og loks var 2,4% aukning á Jöfnunargjaldi alþjónustu sem skilaði tæplega 48 milljónum króna.