Tæplega 600 manns hafa sótt um starf hjá WOW air, nýju flugfélagi í meirihlutaeigu Skúla Mogensen. Auglýst var eftir starfsfólki fyrir síðustu helgi. Auglýst var eftir starfsfólki í fjórar stjórnunarstöðu og ótilgreindan fjölda af sumarstörfum flugliða. Samkvæmt tilkynningu frá félaginu verður ráðið í nokkra tugi starfa, bæði stjórnunarstöður og störf flugliða, en flestar umsóknirnar sem hafa borist eru í störf flugliða. Fleiri föst störf hjá félaginu verða auglýst á næstunni.

Samkvæmt tilkynningu mun áætlunarflug hefjast næsta vor. Búist er við að hægt verði að bóka flug með félaginu á allra næstu dögum.

Skúli Mogensen segir frábært að sjá hversu margir séu búnir að sækja um. „Það er ljóst að fleirum en okkur finnst þetta spennandi umhverfi að starfa í. Það verður ærið verkefni að velja úr öllum þessum umsóknum, en við munum vinna í því á næstu dögum. Miðað við móttökurnar þá er ég ekki í nokkrum vafa um að það verður traust og skemmtileg áhöfn hjá WOW sem þjóna mun sífjölgandi erlendum ferðamönnum ásamt ferðaglöðum Íslendingum á næstu árum.“