*

laugardagur, 29. janúar 2022
Innlent 18. nóvember 2020 15:35

Nærri 8% hækkun síðan faraldurinn hófst

Fasteignaverð hækkaði um hálft prósent að raunvirði í október sem slær út fyrra met í fjölda kaupsamninga.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,9% milli september og októbermánaðar sem þýðir að þriggja mánaða hækkun íbúða nemur 2,7% og tólf mánaða hækkunin nemur 6,0% að því er Þjóðskrá Íslands hefur tekið saman.

Í Hagsjá Landsbankans er bent á að ekki hefur verið meiri 12 mánaða hækkun húsnæðis síðan í apríl 2018, en hækkunin á tólf mánuðum var nokkru hærri í tilviki sérbýla, eða 6,4%, meðan hækkunin nam 5,8% í fjölbýli.

Ef horft er til þess þegar kórónuveirufaraldurinn nam land á Íslandi í mars hefur sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 7,6% meðan hækkun fjölbýlis nemur 4,1%, svo eftirspurnin eftir stærri eignum virðist hafa aukist í kjölfar útbreiðslu Covid 19 en lítið hefur verið byggt af þeim á síðustu árum.

Verðhækkunin nú í október er að raunvirði 0,5%, þar sem almennt verðlag án húsnæðiskostnaðar hækkaði á sama tíma um 0,4%, og er þetta fjórði mánuðurinn í röð þar sem mælist raunhækkun íbúðaverðs. Verð á sérbýli hækkaði á tímabilinu um 1,0% og um 0,7% á fjölbýli.

Október slær út áætlaðann topp í fjölda kaupsamninga

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrr í mánuðinum virðist þó sem dregið hafi úr hækkunum á fasteignum en þá stefndi í að september myndi slá út júlí í fjölda útgefinna kaupsamninga þegar allar tölur væru komnar inn en Húsnæðis og Mannvirkjastofnun taldi að það yrði stærsti mánuðurinn í fjölda kaupsamninga.

Nú þegar uppfærðar tölur eru komnar er ljóst að fjöldinn var töluvert meiri en búist var við eða 971 kaupsamningur sem er svipaður fjöldi og sást þegar mest var að gera á fasteignamörkuðum um mitt ár 2007.

Jafnframt virðist sem októbermánuður hafi ekki verið síður líflegur samkvæmt fyrstu tölum og aftur slegið út septembermánuð með 830 undirrituðum kaupsamningum, þó bæst geti við þá tölu.

Á árinu 2009 voru um 200 íbúasölur á hverjum mánuði sem jókst smám saman í um 600 á síðustu árum, en nú er meðaltal ársins komið í 663 undirritaða kaupsamninga sem er 12% aukning frá meðaltalinu á sama tíma í fyrra.

Hagsjá Landsbankans bendir á að lágt vaxtastig síðustu mánaða sé líkleg ástæða aukinna íbúðaviðskipta, og verðhækkana, en þó nú hafi einstaka lánastofnanir hækkað vexti sem geti leitt til þess að það dragi úr verðhækkunum. Á móti er svo bent á eins og Viðskiptablaðið greindi frá í morgun að Seðlabankinn lækkaði stýrivexti um 0,25 prósentur, niður í 0,75%.