*

laugardagur, 23. október 2021
Innlent 20. desember 2012 13:09

Nærri 80 milljarða framlegð eftir veiðigjald

Í forsendum fyrir álagningu veiðigjalds var gert ráð fyrir um 72 milljarða EBITDA framlegð.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja fyrir afskriftir, fjármagnskostnað og skatta (EBITDA) nam tæpum 80 milljörðum króna í fyrra eftir greiðslu veiðigjalds sem nam 3,7 milljörðum króna. Framlegðin er rúmlega 16 milljörðum meiri en árið 2010 þegar hún nam 63,6 milljörðum króna eftir 2,3 milljarða króna greiðslu veiðigjalds.

Hagstofan birti í dag ritið Hagur fiskveiða og fiskvinnslu 2011 þar sem greint er frá rekstrarniðurstöðum sjávarútvegsins í fyrra. Fjallað er um niðurstöðurnar á vef atvinnuvegaráðuneytisins. Í forsendum fyrir álagningu veiðigjalds fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 var gert ráð fyrir 72 milljarða EBITDA framlegð. Niðurstaðan sýnir að sú spá var talsvert undir raunniðurstöðu, segir á vef ráðuneytisins. Jafnframt er bent á að framlegðin hafi ekki verið hærri í langan tíma. 

„Árið 2012 verður að líkindum einnig gott rekstrarár fyrir sjávarútveginn. Gengi ISK hefur haldist veikt, þorskkvótinn var aukinn talsvert og veiðar og vinnsla á uppsjávarfiski hafa gengið vel á árinu. Á móti hefur verð á erlendum mörkuðum lækkað, ekki síst á botnfiskafurðum. Á heildina litið eru þó afkomuhorfur góðar fyrir sjávarútveginn árið 2012,“ segir í greininni. Áætlað er að veiðigjaldið á árinu 2012/2013 verði á bilinu 12,5 til 13 milljarðar króna.