Fjárfestar í almennu útboði á hlutabréfum í Eimskipi vildu kaupa rúmlega fimmfalt fleiri bréf en í boði voru. Alls bárust áskriftir fyrir rúmlega 11 milljarða króna. Öllum fjárfestum eru tryggð kaup á hlutabréfum fyrir eina milljón króna. Umfram þá upphæð fást 20,5% af því sem óskað var eftir, að sögn Ólafs William Hand, upplýsingafulltrúa Eimskips. Starfsmönnum félagsins eru tryggð kaup fyrir tvær milljónir króna.

Almennu útboði lauk á föstudag sl. Til sölu var að lágmarki 5% hlutafjár sem var í eigu Landsbanka Íslands, ALMC og Samsonar eignarhaldsfélags. Þá mætti Eimskip eftirspurninni með sölu eigin bréfa sem nema 3% af heildarhlutafé.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.