Mikil velta hefur verið með hlutabréf Icelandair Group í dag eða upp á tæpar 780 milljónir króna. Gengi bréfanna hefur hækkað um 1,23% og stendur gengi bréfanna í 8,21 krónum á hlut. Það hefur ekki verið hærra síðan snemma í mars árið 2009 þegar gengi bréfa í félaginu var á hraðri niðurleið og um svipað leyti og Íslandsbanki tók yfir félagið að stórum hluta.

Mikil velta hefur verið með hlutabréf í Kauphöllinni síðustu daga en hún nemur næstum 1,6 milljörðum króna frá því viðskipti hófust í morgun. Eins og áður segir stendur veltan með bréf Icelandair Group undir um helmingi veltunnar.

Þá hefur gengi hlutabréfa sömuleiðis hækkað nokkuð. Frá því viðskipti hófust hefur gengi bréfa Marel hækkað um 2,25 í rúmlega 350 milljóna króna viðskiptum, bréf Haga hafa hækkað um 1,82% í tæplega 70 milljóna króna viðskiptum og Eimskips um 1,31% í tæplega 280 milljóna króna viðskiptum. Þá hefur gengi bréfa Össurar hækkað um 1,06% og Vodafone um 0,46%.

Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 1,49% og stendur hún í 1.036 stigum. Hún hefur hækkað um rúm 2,6% í vikunni og hefur ekki staðið hærra síðan í júlí.