Ferðamenn gistu 3,3% færri nætur á gististöðum á Íslandi á síðasta ári en árið þar áður, eða 10 milljón nætur í stað 10,4 milljóna árið 2018 að því er Hagstofa Íslands greinir frá. Fækkunin var mest á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Austurlandi en mikil fjölgun varð hins vegar á Vestfjörðum og nokkur á vesturlandi.

Þannig fækkaði þeim um 7% á höfuðborgarsvæðinu, 5,8% á Suðurnesjum og 5,3% á Austurlandi, auk 0,5% fækkunar á Norðurlandi Eystra, en fjölgunin á Vestfjörðum var 12,1%, á Vesturlandi 2,8% og svo 0,5% á bæði Suðurlandi og Norðulandi Vestra.

Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru um 5,8 milljónir árið 2019. Gistinætur á tjaldsvæðum voru um 900.000, um 1,7 milljónir í annarri gistingu og um 1,6 milljónir í gegnum vefsíður á borð við Airbnb.

Ef bara er horft til Hótela og gistiheimila á höfuðborgarsvæðinu var fækkunin 3,4%, niður í 2,7 milljónir, en 18,4%, fækkun í gegnum vefsíður eins og Airbnb og 37,2% fækkun á tjaldsvæðum. Á Vestfjörðum var hins vegar fjölgun um 6,8% á hótelum og gistiheimilum, 5,9% í gegnum Airbnb og slíkar síður og heil 42,2% aukning á tjaldsvæðum.

Eins og áður segir dróst því heildarfjöldi gistinátta saman um 3,3% á milli ára. Þar af var 1,2% fækkun á hótelum og gistiheimilum, 6,3% samdráttur á tjaldsvæðum, 10,8% samdráttur á stöðum sem miðla gistingu gegnum Airbnb og svipaðar síður og 0,9% samdráttur var í annarri innigistingu.

Samkvæmt áætlun byggðri á Landamærarannsókn Ferðamálastofu og Hagstofu Íslands voru gistinætur erlendra ferðamanna árið 2019 tæplega 160.000 í bílum utan tjaldsvæða og um 300.000 hjá vinum og ættingjum, í gegnum húsaskipti eða annars staðar þar sem ekki var greitt sérstaklega fyrir gistingu.