Fasteignasalan Eignamiðlun hagnaðist um 43 milljónir króna á síðasta ári, sem var samdráttur um 43% frá fyrra ári þegar hagnaðurinn nam 75,5 milljónum króna.

Rekstrartekjurnar drógust saman um 9% milli áranna, í 359,1 milljón króna, meðan rekstrarkostnaðurinn jókst um 1,6%, í 304,4 milljónir króna. Meðalstöðugildin voru 16 bæði árin. Rekstrarhagnaðurinn fyrir fjármagnsliði dróst því saman um tæplega 43%, í 53,7 milljónir.

Eigið fé félagsins minnkaði um 36,7%, í 48,3 milljónir króna, meðan skuldirnar drógust saman um 12%, í 36,4 milljónir. Þar með lækkaði eiginfjárhlutfallið úr 65% í 57% milli ára. Kjartan Hallgeirsson er framkvæmdastjóri Eignamiðlunar, en félagið er nokkurn veginn til fjórðunga í jafnri eigu 4115 ehf., Guðmundar Sigurjónssonar, 173 ehf. og Fjárfestingarfélagsins Mídas ehf.