*

fimmtudagur, 4. júní 2020
Innlent 15. október 2019 16:28

Nærri milljarðs viðskipti með Arion

Origo eina félagið sem hækkaði í virði í kauphöllinni í dag, en lækkun Arion banka var sú þriðja mesta á eftir Símanum og Kviku.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi lækkaði um 0,90% í 2,8 milljarða heildarviðskiptum í dag, og fór hún niður í 1.885,63 stig.

Einungis eitt félag hækkaði í virði í dag, það var Origo sem hækkaði um 1,80%, en í mjög litlum viðskiptum þó eða fyrir 677 þúsund krónur og var lokagengi bréfa tölvufyrirtækisins 22,65 krónur. Þrjú félög stóðu í stað, Heimavellir á genginu 1,18 krónur, Brim á 38,77 krónur og Sýn á 24,10 krónur.

Mest lækkun var svo á bréfum Símans, eða um 2,90%, í 191 milljóna króna viðskiptum, og fóru þau niður í 4,68 krónur. Næst mest var lækkun bréfa Kviku banka, eða um 2,80%, niður í 9,02 krónur hvert bréf, í 48 milljóna króna viðskiptum.

Langsamlega mestu viðskiptin voru með bréf Arion banka, eða fyrir 992,8 milljónir króna, en bréf bankans lækkuðu um 2,54%, sem er þriðja mesta lækkunin í dag, niður í 72,90 krónur. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gærkvöldi mun aflögð starfsemi og eignir til sölu hjá bankanum hafa neikvæð áhrif á afkomu bankans á þriðja ársfjórðungi sem nemur um þremur milljörðum króna.

Næst mestu viðskiptin voru svo með bréf Festa, eða fyrir 288 milljónir króna, en þau lækkuðu um 0,43%, niður í 117,0 krónur. Þriðju mestu viðskiptin voru svo með bréf Marel, eða fyrir 263 milljónir króna, nam lækkunin 0,36%, niður í 548,00 krónur.

Loks veiktist íslenska krónan gagnvart breska pundinu og sænsku krónunni en styrktist gagnvart Bandaríkjadal, japanska jeninu, svissneska frankanum, dönsku og norsku krónunni. Gengið gagnvart evrunni stóð þó í stað og fæst hún nú á 137,84 krónur.

Veiking Bandaríkjadals gagnvart krónunni nam 0,11% og fæst hann nú á 124,85 krónur, en styrking breska pundsins nam 1,58%, og fæst það nú á 159,40 krónur.