*

miðvikudagur, 26. febrúar 2020
Innlent 15. janúar 2020 16:17

Nærri milljarðs viðskipti með Regin

Kvika banki hækkaði mest og Aron banki lækkaði mest í kauphöllinni í dag, en heildarviðskiptin námu 5 milljörðum.

Ritstjórn

Gengi bréfa Kviku banka hækkaði langsamlega mest í kauphöllinni í dag, eða um 3,57%, í 275 milljóna króna viðskiptum og fór gengið í 11,01 krónu.

Skeljungur hækkaði næst mest, eða um 1,67%, upp í 9,13 krónur í 164 milljónir króna viðskiptum. Hækkun Haga var sú þriðja mesta, eða um 1,41%, í 214 milljóna viðskiptum og fór lokagengið í fyrsta sinn í tvö og hálft ár yfir 50 krónu markið í dag, eða í 50,20 krónur.

Heildarviðskiptin með hlutabréf í kauphöll Nasdaq á Íslandi í dag námu 5 milljörðum króna, og lækkaði Úrvalsvísitalan um 0,14%, niður í 2.151,87 stig. Þar af voru mestu viðskiptin með bréf Reginn, eða fyrir 930 milljónir króna en gengi bréfanna hækkaði um 0,63%, upp í 24,0 krónur.

Mest lækkun var á gengi bréfa Arion banka, eða um 2,76%, niður í 81 krónu, í 732 milljóna króna viðskiptum sem jafnframt eru önnur mestu viðskiptin með bréf í einu félagi.

Lækkaði gengi Sjóvá Almennra trygginga næst mest, eða um 1,04%, í 275 milljóna viðskiptum og fór lokagengi bréfanna niður í 19,05 krónur. Þriðja mesta lækkunin var á gengi bréfa Sýnar, eða um 1,03%, niður í 38,30 krónur, í mjög litlum viðskiptum þó eða fyrir 7 milljónir króna.

Krónan veiktist nema gagnvart þeirri sænsku

Íslenska krónan veiktist gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum, utan sænsku krónunnar, sem lækkaði um 0,02%, og fæst hún nú á 12,937 krónur.

Evran, danska krónan og japanska jenið styrktust öll um 0,15% gagnvart krónunni, fór evran í 136,35 krónur, danska krónan í 18,246 krónur og jenið í 1,1130 krónur.

Breska pundið styrktist um 0,09%, í 159,32 krónur, og Bandaríkjadalur styrktist um 0,02%, í 122,35 krónur.

Stikkorð: hlutabréf Arion Nasdaq Kvika