Hagnaður samlagsfélagsins FÍ Fasteignafélag slfh., nam 173,5 milljónum króna á fyrri hluta árs, sem er nálægt því að vera tvöfaldur viðsnúningur frá sama tímabili fyrir ári þegar félagið tapaði 109 milljónum króna. Félagið er að mestu í eigu lífeyrissjóða, en FÍ Fasteignafélag GP er ábyrgðaraðili og rekstraraðili félagsins og í meirihlutaeigu Kviku banka.

Leigutekjur árshlutans jukust milli ára um 4,5%, úr 349,8 milljónum króna í 365,7 milljónir króna, meðan kostnaðurinn jókst um 6,3%, úr 120,5 milljónum króna í 128 milljónir króna.

Rekstrarhagnaður félagsins fyrir matsbreytingu fjárfestingareigna jókst því um 3,6% milli ára, úr 229,3 milljónum í 237,6 milljónum króna. Hrein fjármagnsgjöld jukust að sama skapi um 12,1% milli ára, úr 261,6 milljónum króna í 293,4 milljónir króna.

Að því frádregnu jókst því tapið af rekstrinum milli ára úr 32,3 milljónir króna í 55,8 milljónir króna, eða um 72,5%. Síðan þegar við bætist matsbreyting fjárfestingareigna snýst dæmið við, því fyrir ári var hún neikvæð um 76,8 milljónir en í ár er hún jákvæð um 229,3 milljónir króna. Þar með þrefaldaðist rekstrarhagnaður (EBIT) félagsins á milli ára, úr 152,5 milljónum króna í 466,9 milljónir króna.

Eiga Amtmannstorfuna og Glæsibæ

Eigið fé félagsins dróst saman frá ársbyrjun um nærri 3%, úr 4.346,6 milljónum í 4.220,2 milljónir króna. Á sama tíma jukust skuldirnar um 3,3%, eða samtals, þó það sé ekki samandregið í ársreikningnum, úr 7,3 milljörðum í ríflega 7,5 milljarða. Þannig jukust eignirnar eilítið eða úr 11.703,8 milljónum í 11.765,9 milljónir, á sama tíma og eiginfjárhlutfallið lækkaði úr 37,1% í 35,9%.

Í dag á félagið 11 fasteignir, þar með talið Amtmannstorfuna, það er húsnæði Humarhússins á Amtmannsstíg, Lækjarbrekku á Bankastræti og Lækjargötu 3 þar á milli, auk Bankastræti 7, sem hýsir m.a. verslun Cintamani og Loft hostel. Einnig á félagið Glæsibæ við Álfheima, Ármúla 1 sem hýsir m.a. Lykil fjármögnun, húsnæði Kviku banka í Borgartúni 25, húsnæði hins nýja Skuggi hótel ofarlega á Hverfisgötu, húsnæði þýska og breska sendiráðsins á Laufásvegi. Jafnframt á félagið atvinnuhúsnæði í Vikurhvarfi 3 og Þverholti 11, þar sem Listaháskóli Íslands er m.a. til húsa.