Hagnaður útgerðarfélagsins Gjögur hf. á Grenivík nam 517,3 milljónum króna árið 201i, sem er rúmlega 80% aukning frá árinu áður þegar hagnaðurinn nam 285,8 milljónum króna.

Andvirði selds afla félagsins jókst um nærri 23% milli ára, frá tæplega 3,9 milljörðum króna í rúmlega 4,7 milljarða, meðan rekstrarkostnaður jókst um tæplega 14%, úr tæplega 3,9 milljörðum í 4,4 milljarða. Rekstrarhagnaðurinn jókst hins vegar margfalt milli ára eða úr 83,5 milljónum króna í 1,5 milljarða, vegna sölu rekstrarfjármuna og aflaheimilda fyrir tæplega 1,1 milljarð.

Eigið fé félagsins jókst um tæp 10%, úr 4,9 milljörðum í 5,4 milljarða á árinu meðan skuldirnar jukust um tæpan fimmtung, úr 7,5 milljörðum í 8,9 milljarða, svo eignirnar námu 14,3 milljörðum króna í lok árs. Eiginfjárhlutfallið minnkaði því eilítið milli ára, úr 39,6% í 37,7%.

Ingi Jóhann Guðmundsson er framkvæmdastjóri og annar stærsti eigandi Gjögurs með ríflega fimmtung eignarhlutar líkt og systir hans Anna Guðmundsdóttur fjármálastjóri. Næst stærstu eigendurnir eru þau Aðalheiður, Sigríður, Oddný, Björgólfur og Guðjón Jóhannsbörn, hver með um 8,4% eignarhlut, en þar á eftir koma þeir Freyr, Þorbjörn og Marinó Njálssynir með tæplega 4% hver.