*

fimmtudagur, 9. júlí 2020
Innlent 20. janúar 2020 17:24

Nærri tvöföldun hagnaðar hjá Högum

Með tilkomu Olís inn í reksturinn á 3. ársfjórðungi jókst hagnaðurinn í 630 milljónir. Eiginfjárhlutfallið lækkaði um 8 prósentur.

Ritstjórn
Finnur Árnason er forstjóri Haga, sem tóku yfir rekstur Olís þriðja ársfjórðungi uppgjörsársins sem er frá 1. september til nóvemberloka.
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður Haga jókst um 91,5% á þriðja ársfjórðungi yfirstandandi reikningsárs, eða úr 328 milljónum króna í 628 milljónir króna, frá fyrra ári en rekstur Olís kom inn í rekstur Haga í byrjun ársfjórðungsins, þann 1. september síðastliðinn.

Segir félagið tilkomu Olís inn í samstæðuna skýra bæði söluaukningu félagsins að mestu, en án áhrifa þess sé söluaukningin 4,0% í báðum matvörukeðjum félagsins, það er Bónusar og Hagkaups, þrátt fyrir fækkun verslana.

Jukust tekjur félagsins því um 52,7% milli ára fyrir tímabilið, eða úr 18,6 milljörðum í 28,4 milljarða, en rekstrargjöld jukust um 46,6%, úr 17,8 milljörðum í ríflega 26,1 milljarð í heildina, að teknu tilliti til kostnaðarverðs seldra vara. Þar af jukust laun og launatengd gjöld félagsins um 42%, úr 2,1 milljarði í nærri 3 milljarða króna.

Reikningsárið frá 1. mars hvert ár

Hagnaður fyrstu níu mánuði uppgjörsársins, sem byrjar 1. mars ár hvert, nam 2.349 milljónum króna, eða 2,7% af veltu félagsins, og var framlegð tímabilsins 22,1%. Er það rétt ríflega 33% meiri hagnaður en á sama tíma árið áður þegar hann nam 1.764 milljónum króna.

Hagnaður félagsins á sama tíma fyrir afskriftir, fjarmagnsliði og skatta (EBITDA) nam 6.736 milljónum króna, en 3.110 á sama tíma fyrir ári, sem er aukning um 117% milli ára.

Tekjur félagsins jukust um 56,2%, úr 56,4 milljörðum króna í 88,1 milljarð króna meðan rekstrarkostnaðurinn, að meðtöldu kostnaðarverði seldra vara, jókst á sama tíma um 52,7%, úr 3,3 milljörðum í 81,4 milljarða. Þar af jukust laun og launatengd gjöld um 47,5%, úr 6,1 milljarði í 9 milljarða króna.

Eigið fé félagsins minnkaði um 0,4% á níu mánaða tímabilinu frá 1. mars síðastliðnum, eða úr tæplega 24,3 milljörðum í 23,2 milljarða, meðan skuldirnar jukust um 39,7%, úr 26,6 milljörðum í 37,1 milljarð. Þar með jukust eignir félagsins um 20,6%, eða úr tæplega 50,9 milljörðum í 61,3 milljarða, en eiginfjárhlutfallið lækkaði um 8,3 prósentustig, úr 47,7% í 39,5%.

Stikkorð: Hagar Olís Hagkaup Bónus hagnaður uppgjör