Tónleikagestum í þremur stærstu tónleikahúsum landsins fækkaði milli 2015 og 2019, þegar þeir voru næst fæstir frá upphafi í Hörpu að því er Hagstofa Íslands segir frá. Alls mættu 205 þúsund tónleikagestir á 695 tónleika í þremur stærstu tónleikahúsum landsins, Hörpu, Salnum og Hofi á síðasta ári, en þar af mættu 174.535 í Hörpu, 22.141 í Salinn í Kópavogi og 8.910.

Uppúr árinu 2010 margfaldaðist fjöldi gesta tónleikahúsa hér á landi samhliða fjölgun tónleikahúsa úr einu árið 2009 í þrjú árið 2011, en þar munaði mestu um tilkomu Hörpu.

Flestir urðu gestir Hörpu árið 2015 eða 236,589, en á síðasta ári voru þeir næst fæstir frá upphafi eða 174.535. Það samsvarar nærri 36% fækkun á milli áranna 2015 og 2019. Einnig var fækkun á milli 2018 og 2019 í Salnum og Hofi.

Rúmlega 105 þúsund gestir mættu samtals á 96 innlenda tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Sinfóníuhlómsveitar Norðurlands á síðasta ári, sem jafngildir tæplega 30% landsmanna. Þar af voru 2.699 gestir á sjö tónleikum norðlensku sveitarinnar.

Öfugt við tónleika almennt fjölgaði gestum Sinfóníuhljómsveitar Íslands milli áranna 2015 og 2019, eða um rúmlega fjórðung, þó tónleikarnir væru jafnmargir eða 89 bæði árin. Fjöldi gesta á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands hefur haldist svipaður frá 2010 en þó með undantekningum árin 2017 og 2018 þegar þeir voru um 15.000 og 12.000 talsins.