Mikill munur hefur verið á milli hverfa, jafnvel innan sama sveitarfélagsins, þegar horft er á hækkun meðalfermetraverðs síðan árið 2011.

Í samanburði á fermetraverði í nokkrum hverfum höfuðborgarsvæðisins utan Reykjavíkur sést að mesta hækkkunin var á Seltjarnarnesi, eða um 70,5%. Þar fór meðalfermetraverðið úr 245.503 krónum á fyrsta ársfjórðungi ársins 2011 upp í 418.624 krónur á öðrum ársfjórðungi þessa árs.

Næst mesta hækkunin var hins vegar í Völlunum í Hafnarfirði, en minnsta hækkunin þar í gamla bænum. Mosfellsbær fór upp fyrir Kópavog á tímabilinu.

Verðþróun meðalfermetraverðs í nokkrum hverfum höfuðborgarsvæðisins utan Reykjavíkur
Verðþróun meðalfermetraverðs í nokkrum hverfum höfuðborgarsvæðisins utan Reykjavíkur

Mikill munur milli hverfa í Hafnarfirði

Af þeim hverfum sem skoðuð voru, var minnst hækkun í Vangahverfinu í Hafnarfirði, sem í grafinu er kallaður gamli bærinn í Hafnarfirði. Nam hækkunin þar einungis 40,4%, og fór meðalfermetraverðið þar úr 185.850 krónum í 261.021 krónur á tímabilinu.

Athyglisvert er að næst mesta hækkunin var hins vegar á Völlunum í Hafnarfirði, eða 63,2% hækkun, en þar fór fermetraverðið úr 201.918 krónum í 329.614.

Næst minnsta hækkun í Kópavogi

Hækkunin í Mosfellsbæ var reyndar mjög svipuð og þar, eða 61,3%, fór meðalfermetraverðið þar úr 213.055 krónum í 343.605 krónur.

Næst minnsta hækkunin var svo í Kópavogi, en ef skoðaðar eru tölur fyrir bæði Lindarhverfið, sem ekki er á grafinu, og Kópavogshæðina sjálfa, þá var hækkunin mjög svipuð, eða 47,5% í Lindarhverfinu, en 47,2% á Kópavogshæðinni á tímabilinu. Fór fermetraverðið þar úr 224.184 krónur í 330.037 krónur.

Mosfellsbær fór uppfyrir Kópavog

Fermetraverðið var lægst í upphafi tímabilsins í gamla bænum í Hafnarfirði, og hélst það til loka tímabilsins.

Einnig hélt eins og gefur að skilja Seltjarnarnes sínu efsta sæti frá upphafi til loka, en einu hverfin sem skiptu um sæti í samanburðinum var að Mosfellsbær fór úr þriðja sætinu upp fyrir Kópavoginn í annað sætið, sem féll niður í þriðja sætið.