Berkshire Hathaway sem er jafnan þekkt sem fjárfestingafélag Warren Buffett er nú orðinn næst stærsta fasteignasala í Bandaríkjunum að því er The Wall Street Journal greinir frá .

Berkshire Hathaway HomeServices hefur veitt sérleyfi fyrir notkun nafn síns til 1.330 skrifstofa og 45.000 fasteignasala allt frá Los Angeles til New York.

Í umfjöllun The Wall Street Journal segir að  Buffett vilji stækka vörumerkið enn frekar. Notkun á nafni Berkshire Hathaway í smásöluviðskiptum er ekki vaninn hjá fjárfestinum góðkunna en stærstu smásölufélög hans, Geico, Dairy Queen og Fruit of the Loom hafa forðast nafn móðurfélagsins.

Fasteignasöluhluti Berkshire Hathaway hefur verið arðbær undanfarin ár hagnaður af starfseminni nam um 220 milljónum dala á síðasta ári.

Um helgina fer fram ársfundur Berkshire Hathaway en búist er við að 40.000 fjárfestar hvaðanæva úr heiminum muni leggja leið sína til Omaha í Nebraska til þess að verða viðstaddir fundinn.