Á fyrri helmingi ársins jókst fjöldi Íslendinga sem flugu út í heim um 15% frá síðasta ári, og var heildarfjöldi ferða þeirra 290 þúsund á þessu tímabili. Síðustu þrír mánuðir voru svo metmánuðir í ferðum Íslendinga erlendis, og þar af var júní langsamlega stærstur, en þá ferðuðust 62 þúsund manns úr landi, sem er næst stærsti mánuðurinn frá upphafi.

Einungis júnímánuður í fyrra var stærri þegar Íslendingar fylgdu landsliðinu í fótbolta til Frakklands að því er Morgunblaðið greinir frá. „Það er alveg óhætt að segja að síðustu tvær vikurnar hafi verið mjög blómlegar í sölu á pakkaferðum hjá okkur,“ segir Tómas J. Gestsson framkvæmdastjóri Heimsferða.

„Salan í ár hefur verið mjög góð og vinsælustu staðirnir bókuðust hratt upp í forsölu. Við höfum sjaldan selt eins mikið. Fólk vill bara komast út strax og næstu tvær vikurnar eru mjög þétt bókaðar.“

Fólk fer út oftar en einu sinni á ári

Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Ferðaskrifstofu Íslands, en henni tilheyra Úrval-Útsýn, Sumarferðir og Plús ferðir, segir sölu pakkaferða vera að aukast. „Fólk virðist líka fara út oftar en einu sinni á ári. Þá er farið í stutt sumarfrí og síðan jafnvel borgarferð eða sérferð,“ segir Þórunn.

Þór Bæring Ólafsson, framkvæmdastjóri Gaman ferða segir bæði tónleikaferðir vera vinsælar hjá þeim auk þess að stór hópur sé að fara á EM kvenna í knattspyrnu í Hollandi.

„Það hefur verið mikið um bókanir hjá stærri hópum sem eiga kannski erfitt með að bóka sjálfir sökum stærðar,“ segir Þór Bæring. „Þá erum við í mörgum tilfellum að tala um stórar fjölskyldur, 20-30 manns. Við höfum tekið eftir því að það er uppsöfnuð ferðaþörf hjá slíkum hópum.“