Í febrúar nam útflutningsverðmæti eldisafurða 2.937 milljónum króna, sem er næst stærsti mánuður í útflutningsverðmætum frá upphafi, og 50% aukning í krónum talið frá ári fyrr, en rúmlega 46% ef miðað er við fast gengi.

Magnaukningin er jafnframt svipuð eða rúm 45% að því er SFS bendir á upp úr tölum Hagstofu Íslands í fréttabréfi. Hagstofan greinir frá því að í heildina hafi verið fluttar út vörur fyrir 47,9 milljarða króna í febrúar, sem er 7,1% aukning frá árinu áður þegar fluttar voru út vörur fyrir 44,7 milljarða króna.

En á sama tíma dróst innflutningurinn saman um 17,6%, úr 60,3 milljörðum króna í 49,7 milljarða, en þrátt fyrir það voru þau áfram óhagstæð eða um 1,8 milljarða króna. Þar með voru vöruviðskiptin 13,8 milljörðum króna minna óhagstæð í ár en í febrúar í fyrra þegar þau voru óhagstæð um 15,6 milljarða króna, á gengi hvors árs.

Mestu munaði um flugvélar og skip í fimmtungssamdrætti útflutningsafurða

Verðmæti vöruútflutningsins voru 21,6 milljörðum krónum minni fyrstu tvo mánuði ársins, en á sama tíma ári fyrr, eða 17,8% á gengi hvors árs, en mestu þar munar mestu um viðskipti með skip og flugvélar sem áttu sér stað í janúar 2019, en þá voru í hámæli aðgerðir forsvarsmanna Wow air til að bjarga félaginu en á laugardaginn síðasta var liðið ár frá falli þess.

Á sama tíma var verðmæti vöruinnflutningsins 12,5 milljörðum króna minni en sama tíma árið áður, eða 11,1% minni á gengi hvors árs. Þar af dróst mest saman innflutningur á hrá- og rekstrarvörum auk fjárfengarvara en jókst á flutningstækjum, eldsneyti, smurolíum og neysluvörum.

Tæplega helmingur alls útflutningsins þessa tvo fyrstu mánuði voru iðnaðarvörur, eða 46,2% en verðmæti þeirra lækkaði um 12,7% milli ára, meðan sjávarafurðir voru 44,7% alls vöruútflutningsins, sem var 7,8% aukning milli ára. Þar af var mest aukning í frystum heilum fiski og frystum flökum, meðan minnkun var í verðmæti fersks fisks á milli áranna.

Helmingssamdráttur í öðrum eldistegundum en silungi

Sé tekið mið af fyrstu tveimur mánuðum ársins er útflutningsverðmæti eldisafurða komið í tæpa 5,5 milljarða króna samanborið við tæpa 4,4 milljarða á sama tíma í fyrra. Það er um 26% aukning milli ára að því er SFS bendir á. Þannig hefur útflutningur aukist til allra svæða á þennan kvarða, að ESB löndum undanskildum þar sem lítilsháttar samdráttur varð á tímabilinu.

Hlutfallslega er aukningin mest til Asíu, sem að stærstum hluta má rekja til Kína. Eftir sem áður fer langstærsti hluti eldisafurða til Bandaríkjanna og Evrópu, en samanlögð hlutdeild þessara svæða miðað við útflutningsverðmæti eldisafurða á fyrstu tveimur mánuðum ársins er 91%.

Af útflutningi fiskeldisafurða í febrúar munaði mestu um eldislax, en meiri aukning varð hlutfallslega á silingu. Þannig nam útflutningsverðmæti eldislaxins 2.263 milljónum króna í mánuðinum samanborið við 1.530 milljónir á sama tíma árið áður, sem er 48% aukning í krónum talið.

Útflutningsverðmæti silungs, sem er aðallega bleikja, nam 629 milljónum króna í febrúar samanborið við 337 milljónir í sama mánuði í fyrra. Jafngildir það aukningu upp á 87%. Talsverður samdráttur varð á útflutningsverðmæti annarra eldisafurða, en verðmæti þeirra nú í febrúar nam 45 milljónum króna samanborið við 92 milljónir í febrúar í fyrra.