Benetton fjölskyldan, stofnendur samnefnds fatamerkis, vinna nú að því ásamt fjárfestingarisanum Blackstone að leggja inn yfirtökutilboð í ítalska innviðafyrirtækið Atlantia. Reuters greinir frá og segir að ef af yfirtökunni verði sé um næst stærstu viðskipti á heimsvísu að ræða það sem af er 2022.

Stærstu viðskipti sem hafa átt sér stað árið 2022 voru 69 milljarða dala kaup Microsoft á tölvuleikjafyrirtækinu Activision Blizzard.

Benetton fjölskyldan á þegar þriðjungshlut í Atlantia í gegnum fjárfestingafélagið Edizione. Ef af kaupunum verður er talið að innviðafélagið verði metið á ríflega 48 milljarða evra í kjölfarið, eða sem nemur um 6.753 milljörðum króna.

Atlantia á og rekur vegi og flugvelli víða um Ítalíu. Félagið er með höfustöðvar í Róm og er skráð í Kauphöllina í Mílanó.