Þó svo að Sjálfstæðisflokkurinn sé á ný orðinn stærsti stjórnmálaflokkur landsins þá er niðurstaða kosninganna í gær sú næst versta sl. 30 ár. Í kosningunum árið 2009 fékk Sjálfstæðisflokkurinn sína verstu útreið í sögu flokksins þegar hann fékk aðeins 23,7% fylgi.

Ef litið er til úrslita þingkosninga frá árinu 1983 hefur flokkurinn aðeins þrisvar fengið fylgi undir 30%. Fyrir utan fyrrnefndar kosningar, þ.e. í gær og árið 2009, þá fékk flokkurinn 27,2% fylgi í kosningunum árið 1987 undir forystu Þorsteins Pálssonar. Þá hafði Albert Guðmundsson, sem setið hafði sem fjármálaráðherra á því kjörtímabili, klofið flokkinn með stofnun Borgaraflokksins sem fékk tæplega 11% fylgi í kosningum það ár.

Meðalfylgi Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1983 er tæplega 34%. Flokkurinn jók verulega fylgið sitt á milli kosninga vorið 1991 undir forystu Davíðs Oddssonar, en þá hafði Borgaraflokkurinn jafnframt lagst af. Sjálfstæðisflokkurinn fékk þá 38,6% fylgi.

Mest náði Sjálfstæðisflokkurinn 40,7% fylgi í kosningunum árið 1999. Fylgi flokksins lækkaði nokkuð í kosningunum vorið 2003 en jókst aftur árið 2007 undir forystu Geirs H. Haarde.

Á myndinni hér að neðan má sjá fylgi flokksins sl. 30 ár.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins sl. 30 ár.
Fylgi Sjálfstæðisflokksins sl. 30 ár.
© vb.is (vb.is)

Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur lækkað umtalsvert í könnunum sl. 12 mánuði. Hér að neðan má sjá fylgi Sjálfstæðisflokksins í könnunum Þjóðarpúls Capacent, MMR og Félagsvísindastofnunar Háskólans sl. 12 mánuði að viðbættum niðurstöðum kosninganna í gær.  Allt fram í janúar á þessu ári var flokkurinn að mælast með um og yfir 35% fylgi og þannig hafði það verið í könnunum allt frá árinu 2010. Eins og sjá má á myndinni tók fylgi flokksins í könnunum stökk niður á við eftir Icesave dóminn svokallaða í lok janúar sl. og í raun aftur eftir landsfund flokksins í lok febrúar.

Fyrr í þessum mánuði, í ljósi þessa mikla fylgistaps flokksins, birti Viðskiptablaðið könnun þar sem spurt var hvort að kjósendur væru líklegri til að kjósa flokkinn ef varaformaður flokksins væri formaður og myndi leiða hann í kosningum. Niðurstaðan var nokkuð afgerandi og sama dag og blaðið kom út, þann 11. apríl sl. sagðist Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafa íhugað afsögn í viðtali við Ríkissjónvarpið.

Tveimur dögum síðar tilkynnti hann á fjölmennum fundi í Garðabæ að hann hygðist halda áfram og nyti til þess traust í flokknum. Eins og sjá má á myndinni tók fylgi flokksins stökk upp á við kjölfar þessara atburða. Flokkurinn mældist lægst með 19% fylgi en endaði síðan í tæplega 27% fylgi eftir kosningarnar í gær.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins sl. 12 mánuði skv. könnunum Þjóðarpúls Capacent, MMR og Félagsv.stofnunar HÍ auk niðurstöðu í kosningum 2013.
Fylgi Sjálfstæðisflokksins sl. 12 mánuði skv. könnunum Þjóðarpúls Capacent, MMR og Félagsv.stofnunar HÍ auk niðurstöðu í kosningum 2013.
© vb.is (vb.is)