Orkuveita Reykjavíkur (OR) þarf að kaupa talsverðan gjaldeyri á næstu misserum, sérstaklega á næsta ári, til að greiða niður erlendar skuldir sínar. Afborganir af lánum OR á næsta ári nema 25 milljörðum króna og eftir það á milli 16 til 20 milljarða á ári fram til ársins 2018.

Greining Íslandsbanka fjallar um nýsamþykkta fjárhagsáætlun OR fyrir næsta ár og fimm ára áætlunina í Morgunkorni sínu í dag. Í fjárhagsáætluninni er gert ráð fyrir 6,3 milljarða króna hagnaði OR á næsta ári.

Greining Íslandsbanka segir áætlunina ráðast af því hve miklar afborganir eru af lánum sem greiða þarf á fyrri helmingi næsta árs og megi í raun segja að næsta ár muni skipta sköpum um hvort Plan OR og eigenda gangi upp. Ef fyrirtækið kemst klakklaust gegnum næsta ár verður rekstur þess líkast til kominn á mun lygnari sjó, að mati Greiningar bankans.

Í Morgunkorninu segir enn fremur:

„Þrátt fyrir að hluti af afborgunum hafi verið færður til þá nema afborganir af langtímalánum á næsta ári hátt í 25 ma.kr., sem er skv. áætluninni erfiðasta afborganaárið á tímabilinu 2011-2016. Þó eru endurgreiðslur lána áætlaðar verulegar 5 árin þar á eftir, þ.e. á tímabilinu 2014-2018, eða á bilinu 16-20 ma.kr. á ári hverju. Eru þetta lán sem hafa verið tekin til að fjármagna virkjanaframkvæmdir og fjárfestingar í hlutabréfum árið 2007. Hins  vegar gerir áætlunin ráð fyrir að handbært fé frá rekstri þeki endurgreiðslu lána öll árin. Er þó ljóst að OR þarf að kaupa talsverðan gjaldeyri næstu misserin m.v. þessa áætlun um niðurgreiðslu á skuldum, sér í lagi á næsta ári. Ríflega 80% skulda OR eru í erlendri mynt, en innan við fjórðungur tekna fyrirtækisins er í gjaldeyri. Á árunum 2013-2018 eiga skuldir að lækka úr 211 mö.kr. í 144 ma.kr., eða um 31,5%.“