*

miðvikudagur, 22. september 2021
Innlent 19. nóvember 2020 11:50

„Næsta ár verður ár peningaprentunar“

Ásgeir Jónsson segir að peningaprentun af hálfu Seðlabankans muni hefjast að verulegu leyti á næsta ári. Umfang ræðst af verðbólgu.

Alexander Giess
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri tók til máls á Peningamálafundi Viðskiptaráðs fyrr í dag.
Haraldur Guðjónsson

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að peningaprentun af hálfu Seðlabanka Íslands muni hefjast að ráði á næsta ári. Ásgeir sagði að „það liggur fyrir að peningaprentunin hjá okkur [Seðlabanka Íslands] verður í að kaupa ríkisskuldabréf“. Þetta kom fram í ávarpi Ásgeirs á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem fór fram áðan með stafrænum hætti.

„Fyrstu aðgerðir fólust í því að taka niður stýrivexti og hvetja bankana til þess að lána og endurfjármagna. […] Við þurftum að „stabilísera“ gengið. Það var lykilatriði að tryggja kaupmátt almennings og stöðugleika í kerfinu. Næsta aðgerð núna er að fara prenta peninga sem við erum ekki enn byrjuð á. Næsta ár mun þá vera ár peningaprentunar af hálfu Seðlabankans,“ sagði Ásgeir. Bætir hann við að umfang peningaprentunar fari eftir því hversu mikið verðbólga gengur niður.

Ásgeir líkti peningastjórnun í litlu hagkerfi við þolfimi í litlu herbergi – slíkt er hægt en það verður flóknara en ella. Ásgeir tók fram að allir þeir markaðir sem Seðlabankinn vinnur á séu litlir og þar vanti alla jafna seljanleika. Hreyfingar séu snöggar og hagkerfið opið. Slíkt geri það að verkum að Seðlabanki Íslands geti ekki gefið jafn mikinn fyrirsjáanleika líkt og stærri Seðlabankar. Ásgeir tók þó fram að hann hafi aldrei stundað þolfimi á ævinni en að hann geti ímyndað sér erfiðleika þess í litlu herbergi.

Hagfræðingar sem og markaðsaðilar hafa gagnrýnt Seðlabanka Íslands harðlega á undanförnum vikum vegna aðgerðaleysi í magnbundinni íhlutun. Seðlabankinn boðaði upphaflega magnbundna íhlutun í mars á þessu ári fyrir allt að 150 milljarða króna. Í upphafi nóvember höfðu kaup Seðlabankans numið um 900 milljónum en í nóvember hefur hann keypt fyrir um 1.500 milljónir.