Næsta skrefið í átt að afnámi gjaldeyrishafta verður stigið í byrjun nóvember þegar Seðlabankinn mun innleiða svokallaða fjárfestingarleið eða 50/50-leið eins og hún hefur einnig verið kölluð. Frá þessu greinir Morgunblaðið.

Í fjárfestingarleið felst að eigendur aflandskróna geta fjárfest krónum sínum í innlendum langtímaverkefnum, gegn því að þeir leggi einnig til jafnháa upphæð í erlendri mynt. Þá verður viðkomandi einnig leyft að skipta helmingi þess gjaldeyris sem þeir flytja til landsins fyrir krónur gegn því að fénu verði varið til fjárfestinga innanlands. Fjármálafyrirtæki munu hafa milligöngu um að beina fénu í fjárfestingu.

Haft er eftir Þorgeiri Eyjólfssyni, verkefnisstjóra afnáms gjaldeyrishafta, að aflandskrónueigendum verði heimilað að festa fé í flestum þeim verkefnum sem öðrum bjóðast, svo sem skuldabréfum, hlutabréfum, fasteignum o.s.frv.