Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í gær hefur velta á skuldabréfamarkaði aukist töluvert það sem af er ári eftir samdrátt í fyrra. Velta á hlutabréfamarkaði hefur einnig tekið við sér eftir talsverðan samdrátt í veltu á síðasta ári þegar velta lækkaði um 20% frá fyrra ári og hafði raunar lækkað nær samfellt frá öðrum ársfjórðungi 2017. Velta á hlutabréfamarkaði nam 160,1 milljarði króna á öðrum ársfjórðungi og hækkaði um 40% frá sama tímabili í fyrra. Þá var fjórðungurinn sá næstveltumesti frá hruni en einungis fyrsti ársfjórðungur 2017, sem innihélt meðal annars afléttingu gjaldeyrishafta, er veltuhærri.

Að mati viðmælenda Viðskiptablaðsins lék Marel stórt hlutverk í aukinni veltu á hlutabréfamarkaði enda stóð félagið undir um 24% af veltu á hlutabréfamarkaði á fyrri helmingi ársins auk þess sem bréf félagsins hækkuðu um 50% á tímabilinu. Þá hefur ávöxtun á markaðnum verið góð það sem af er ári en úrvalsvísitalan hækkaði um ríflega 26% á fyrri helmingi ársins ársins eftir mögur ár þar á undan. Hefur þetta hjálpað veltunni þar sem aukin ávöxtun á það til að fá fleiri fjárfesta til að koma inn á markaðinn.

Þá var einnig nefnt að tveir óvissuþættir sem vofðu yfir markaðnum á seinni hluta síðasta árs hefðu tekið á sig skýrari mynd á fyrri helmingi ársins. Bæði var skrifað undir kjarasamninga eftir talsverð átök auk þess sem óvissa um afdrif WOW air skýrðist í marsmánuði. Að mati viðmælenda voru báðir þessir þættir til þess að minnka óvissu fjárfesta þrátt fyrir afdrif WOW air. Þá var það einnig nefnt að vaxtalækkanir hefðu hjálpað hlutabréfamarkaðnum enda ættu þær á endanum að skila sér í lægri fjármagnskostnaði fyrirtækja. Það ætti að ýta undir aukið verðmæti þeirra á markaði að öðru óbreyttu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér