Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu - og sveitarstjórnarráðherra hafa boðað til blaðamannafundar í Safnahúsinu klukkan 16. Þar verður aðgerðarpakki númer tvö vegna heimsfaraldursins kynntur.

Tæpur mánuður er síðan síðasti aðgerðarpakki var kynntur en það var þann 21. mars í Norðurljósasal Hörpu. Á meðal þess sem þá var kynnt var hlutastarfaleiðin, brúarlán til atvinnulífsins, frestun opinberra gjalda, heimild til úttektar á séreignasparnaði og 20 milljarða króna fjárfestingaátak kynnt. Litlar upplýsingar hafa verið gefnar um hvað verður í pakkanum að þessu sinni en þó er líklegt að þar verði meðal annars kynntur sértækur stuðningur við lítil fyrirtæki og einkarekna fjölmiðla. Þá er líklegt að komið verði til móts við foreldra í viðkvæmri stöðu.