Viðskipti með skuldabréf Glitnis banka eru þau næstmestu með skuldabréf fallinna banka í heiminum. Einungis hafa farið fram meiri viðskipti með bréf í bandaríska bankarisanum Lehman Brothers. Alls hafa farið fram um 1.000 framsöl á skuldabréfakröfum á Glitni frá falli bankans.

Endurheimtur eigenda skuldabréfa Glitnis eru í dag áætlaðar um 30,5% sem þýðir að áætlanir geri ráð fyrir að það hlutfall af upphaflegu virði kröfunnar fáist til baka þegar slitum bankans er lokið.

Sjá hagnaðarvon

Frá því að kröfulýsingarfresti í bú bankanna lauk hefur ekki verið hægt að selja eða kaupa skuldabréfin á almennum markaði. Kröfurnar má hins vegar framselja.

Gríðarleg viðskipti hafa verið með skuldabréf allra föllnu íslensku bankanna. Þannig eru viðskipti með bréf sem útgefin voru af Kaupþingi einnig á meðal þeirra mestu í hópi fallinna fjármálafyrirtækja. Væntar endurheimtur á Kaupþingsbréfum eru nú um 29%.

Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, segir að hver og ein kröfuhafaskrá þurfi að taka breytingum í samræmi við hvert framsal. Íslensku bankarnir hafa því þurft að hanna sérstök kerfi hjá sér til að sjá um umsýslu á breytingum á kröfuhöfum. „Það virðist vera sem erlendir fjárfestar telji ástæðu til þess að versla með kröfur í Glitni. Þeir hljóta því að sjá einhverja hagnaðarvon í þessum viðskiptum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.