Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, hélt erindi á fundi VÍB og Viðskiptaráðs Íslands um samkeppnishæfni Íslands.

„Á næstu dögum mun eitthvað gerast sem hefur mikil áhrif á samkeppnishæfni Íslands," sagði Sigmundur, en hann vísaði þar bæði til þess að til tíðinda myndi draga varðandi afnám hafta, auk þess sem næstu skref í vinnudeilum skiptu miklu máli.

Samkeppnishæfnin batnar

Á fundinum var farið yfir skýrslu IMD um samkeppnishæfni Íslands. Í Viðskiptablaðinu í dag er farið ítarlega yfir skýrsluna, en Ísland færist upp úr 25. í 24. sæti í samanburði um samkeppnishæfni landsins.

Forsætisráðherra gerði þetta að umtalsefni og sagði niðurstöðurnar renna frekari stoðum undir að efnahagsmál væru í góðum farvegi á Íslandi. „Við erum samkeppnishæf en getum bætt okkur á mörgum sviðum og orðin enn samkeppnishæfari," sagði Sigmundur. Hann sagði mikilvægt að horfa bjartsýn fram á við og láta ekki úrtölumenn draga kraft úr framþróun hér á landi.