Líkur eru á að næstu skref í afnámi gjaldeyrishafta verði stigin síðar í þessum mánuði. Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í útvarpsþættinum Sprengisandi í morgun.

Sigmundur segist ánægður með þá undirbúningsvinnu sem hafi verið unnin á síðustu misserum í tengslum við afnám fjármagnshafta. Sú vinna muni koma til með að hjálpa til við að losa um höftin.

Aðspurður segist forsætisráðherra ekki geta gefið upp nákvæmlega hvaða aðgerðum verði beitt á næstunni til þess að afnema höftin, né hvaða leið verður farin. Þó sagði Sigmundur: „Sama hvaða leið verður farin þá verður hún allavega til þess hönnuð, að tryggja að ekki meira fjárhagslegt tjón lendi á almenningi. Þvert á móti að þetta lokauppgjör á bankahruninu verði til þess fallið að ná til baka einhverjum af þeim skaða sem orðið hefur.“