„Skýjastefna ríkisins verður bráðum opinber, en hún segir að það sé fyrsta val opinberra stofnanna að fara með innviði og gögn í skýið frekar en að vera með tölvuinnviði í „kjallaranum", segir Ari Viðar Jóhannesson, stofnandi hugbúnaðarfyrirtækisins Andes. Fyrirtækið hefur vaxið hratt á undanförnum árum og er leiðandi í innleiðingu Amazon Web Services (AWS) skýjalausna á Íslandi.

Andes er jafnframt fyrsta íslenska fyrirtækið með Advanced Partner vottun frá AWS. Fyrirtækið hefur innleitt AWS skýjalausnir í rekstur fjölmargra fyrirtækja og stofnanna. Þar má nefna RÚV, Sýn og Íslandspóst. Íslenska ríkið er jafnframt stór viðskiptavinur Andes í gegnum verkefnið Stafrænt Ísland og hefur Andes leitt þjónustu Stafræns Íslands inn í AWS-skýið.

Hann segir að skýjaþróunin hafi farið mjög hratt af stað hérlendis, ekki síst í opinbera geiranum. „Vanalega er opinberi geirinn ekki jafn fljótur að stökkva á nýja tækni í samanburði við einkageirann. En í skýjamálunum hefur hið opinbera haft mjög hraðar hendur. Kostnaðurinn við að keyra eitthvað í skýinu er í samræmi við notkunina og er eins konar „pay as you go" fyrirkomulag. Þannig að ef notkunin er lítil þá er kostnaðurinn lítill.“

Meirihluti hagnaðar Amazon í gegnum AWS

AWS, skýjaþjónustan frá Amazon, er stærsta skýjaþjónusta í heimi. Aðrar stórar skýjaþjónustur eru Microsoft Azure, Google Cloud og Ali Cloud, sem er notað í Asíu.

„Flestir hugsa líklega um Amazon sem netverslun eða bókabúð. Hins vegar er 59% af 22,9 milljarða dala rekstrarhagnaði Amazon að koma í gegnum AWS. Á sama tíma nema tekjur AWS um 12% af heildartekjum Amazon."

Vefnámskeið um gagnabraut ríkisins

Á morgun býður Andes upp á vefnámskeið um X-Road. Þar munu sérfræðingar á vegum Andes, Amazon og Nordic Institute for Interoperability Solutions (NIIS) kynna X-Road tæknina og hvernig hægt er að tengjast Straumnum með uppsetningu á X-Road í AWS skýinu. Fyrirlesturinn verður opinn öllum og er hægt að skrá sig hér .

Straumurinn (X-Road) er gagnaflutningslag íslenska ríkisins sem snýst um að búa til örugga gagnabraut til að deila gögnum svo að stofnanir og fyrirtæki geti átt örugg rafræn samskipti sín á milli. Straumurinn byggir á X-Road tækninni sem NIIS hefur þróað. Fyrirlesturinn er sérniðinn stofnunum og fyrirtækjum sem þurfa að huga að því að færa gagnasöfnin sín úr „kjallaranum" og upp í skýin.

Ari útskýrir að X-Road tæknin skapi örugga leið gagna sem hægt er að kalla gagnabraut. „Það er stefna ríkisins að veita aðgang að gögnum þess, þá geri stofnanir það yfir X-Road. Þannig séu öll skilyrði uppfyllt varðandi gagnaöryggi." Hann bætir við að tæknin tryggi rekjanleika og að þannig sé alltaf vitað hver notaði hvaða gögn og hvenær.

X-Road er 10 ára gamalt kerfi og hefur tækninni fleygt fram síðan þá. „Amazon og NIIS eru að vinna saman að því að nútímavæða X-Road tæknina með því að gera hana aðgengilega í skýinu. Við hjá Andes gerum fyrirtækjum kleift að taka X-Road í notkun í gegnum AWS með auðveldum hætti."