Seðlabanki Íslands stefnir að því að halda fjögur gjaldeyrisútboð til viðbótar á þessu ári, þar sem bankinn kaupir erlendan gjaldeyri og selur samdægurs í tveimur útboðum hvern dag. Samkvæmt áætlun sem birt er á vefsíðu bankans verður næsta útboð haldið 29. ágúst. Þrjú til viðbótar verða haldin í október, nóvember og desember.

Seðlabankinn tilgreinir að hann áskilur sér rétt til að fjölga eða fækka útboðsdögum.

„Markmið útboðanna er að selja krónur til aðila sem eru tilbúnir að eiga þær í a.m.k. 5 ár með kaupum á ríkisverðbréfum eða fjárfestingum samkvæmt fjárfestingarleið sem kynnt var 18. nóvember 2011. Jafnframt gera útboðin fjárfestum kleift að selja krónueignir sínar með skipulögðum hætti ef þeir svo kjósa. Markmiðið með viðskiptunum er að auðvelda losun gjaldeyrishafta án þess að það valdi óstöðugleika í gengis- og peningamálum eða tefli fjármálastöðugleika í hættu. Aðgerðinni er einnig ætlað að fjármagna ríkissjóð á hagkvæman hátt til langs tíma og draga úr endurfjármögnunarþörf á meðan losað er um gjaldeyrishöftin.“