„Þessar uppsagnir snerta ekki leikjaþróunardeild fyrirtækisins,“ segir Eldar Ástþórsson, upplýsingafulltrúi CCP. Fyrirtækið tilkynnti í dag að 49 störf hafi verið lögð niður. Þar af eru 27 störf í höfuðstöðvum CCP í Reykjavík. Hjá CCP unnu áður 450 manns, þar af 280 hér á landi. Þeim fækkar nú niður í 401 í heildina.

Eldar segir forsvarsmenn CCP ekki ætla að tjá sig mikið um uppsagnirnar og skipulagsbreytingarnar hjá fyrirtækinu að öðru leyti en því sem fram kemur í tilkynningu. Störfin sem voru lögð niður snúa að útgáfustarfsemi CCP. Fram kemur í tilkynningu að lögð verði áhersla á þróun og útgáfu tölvuleikja í EVE veröldinni.

Þetta er annað skiptið á árinu sem tilkynnt er um breytingar á skipulagi og áherslum hjá CCP. Í apríl var greint frá því að hætt hafi verið við þróun á tölvuleiknum World of Darkness. Í tengslum vði það voru lögð niður 56 störf hjá CCP í Atlanta.