Finnur Oddsson tók við stöðu forstjóra Nýherja árið 2013, en fyrirtækið er eitt elsta upplýsingatæknifyrirtæki landsins og með þeim fyrirtækjum sem hafa lengst verið skráð í kauphöll. Spurður hvernig það kom til að Finnur endaði sem forstjóri Nýherja segir hann það í raun hafa verið fyrir tilviljun. „Leiðin er kannski frekar óvenjuleg. Ég er með bakgrunn í félagsvísindum, kláraði doktorsnám í sálfræði í Bandaríkjunum og fór svo að vinna þar í fyrirtækjaráðgjöf. Eftir fimm ár í Bandaríkjunum fluttum við fjölskyldan svo heim árið 2001. Ég fór þá að vinna í við viðskiptafræðideild Háskólans í Reykjavík, við kennslu og rannsóknir, en komst fljótt að því að þetta týpíska akademíska hlutverk átti ekkert sérlega vel við mig.

Mér finnst gaman að kenna en rannsóknir voru ekki eitthvað sem ég sá fyrir mér í lengri tíma þannig að ég hliðraðist yfir í stjórnunartengd verkefni í háskólanum. Ég hef þó alltaf haft áhuga á því hvernig við tökum þekkingu úr akademíu og beitum henni í raunverulega heiminum, og þá fyrst og fremst í atvinnulífinu. Árið 2007 var ég beðinn um að koma og vinna hjá Viðskiptaráði og þá voru rökin mín fyrir að vinna þar tvíþætt. Annars vegar að Viðskiptaráð stendur Háskólanum í Reykjavík mjög nærri, er stærsti eigandi skólans, þannig að ég fékk í einhverjum skilningi að hreyfa mig innan fjölskyldunnar og vera áfram viðloðandi HR. Hins vegar gaf þetta mér færi á að færa mig nær atvinnulífinu.

Eftir fimm ár, sem var sá tími sem ég setti mér hjá Viðskiptaráði var kominn tími til að gera eitthvað annað og mig hafði alltaf langað að spreyta mig í rekstri. Einhver röð tilviljana endaði með því að mér var boðin vinna hjá Nýherja. Það voru reyndar fleiri kostir í stöðunni en ég leit svo á að ef ég ætlaði einhvern tímann að læra eitthvað um upplýsingatækni, og það er fátt meira spennandi en það, þá væri best að vera innan þess geira, mað­ ur lærir hraðast þannig. Það er lúxusinn í þessu verkefni að ég læri eitthvað nýtt á hverjum einasta degi því nánast allir sem ég vinn með kunna meira en ég.“

Ítarlegt viðtal við Finn má finna í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Innskráning.