Dótturfélög Og Vodafone, Íslenska útvarpsfélagið ehf. og Frétt ehf., hafa fengið ný nöfn: 365 - ljósvakamiðlar og 365 - prentmiðlar. Nýju nöfnin eru liður í samþættingu rekstrar félaganna. Nýtt skipurit var kynnt á starfsmannafundi í morgun og er því ætlað að tryggja sjálfstæði og fjölbreytileika fjölmiðlanna en sækja styrk í samþættingu rekstrar, markaðs- og sölustarf. Jafnframt hefur verið skipuð ný stjórn í félögunum.

Í stjórn 365 - ljósvakamiðla eiga nú sæti Skarphéðinn Berg Steinarson, Eiríkur S. Jóhannesson og Baltasar Kormákur Baltasarson. Í stjórn 365 - prentmiðla eiga sæti Skarphéðinn Berg Steinarson, Eiríkur S. Jóhannesson og Árni Hauksson.

Starfsemi þjónustuvera fjölmiðlanna og Og Vodafone verða sameinuð í nýju og öflugu þjónustuveri undir merkjum Og Vodafone frá næstu mánaðamótum. Með því verður til eitt öflugasta þjónustuver landsins, sem sinnt getur fjölbreytilegustu verkefnum.

Fjármálastjórn Og Vodafone og 365 verður framvegis sameiginleg og rekstur dreifikerfis ljósvakamiðla verður fluttur til OgVodafone.

Skipulagsbreytingar þessar eru í samræmi við stefnu félagsins er kynnt var á hluthafafundi félagsins 15. desember 2004 segir í tilkynningu til Kauphallarinar.