Kostnaður við markaðssetningu nýs nafns á Skýrr, sem nú heitir Advania, er áætlaður um 125 milljónir króna, samkvæmt andmælum félagsins sem send voru sýslumanni vegna lögbannskröfu félagsins Advance á nafnbreytingunni. Stefán Hrafn Hagalín, upplýsingafulltrúi Advania, segir heildarkostnað við nafnbreytingu langt innan marka á heildarkostnaði við markaðsmál samstæðunnar á árunum 2011 og 2012.

Kostnaður við markaðssetningu auðkennisins er skráður undir þrautaþrautavarakröfu í andmælum Advania. Auk 125 milljónanna er kostnaður við markaðssetningu nýs auðkennis, ef lögbann yrði samþykkt, áætlaður 70 milljónir og málskostnaður fyrir sýslumanni, héraðsdómi og Hæstarétti áætlaður 8 milljónir. Stefán Hrafn segir upphæðina setta fram af lögmönnum félagsins til þess að verja félagið fyrir öllum hugsanlegum skaða af völdum lögbanns. Upphæðin sé ekki eiginlegur kostnaður við nafnbreytinguna. Hann vill ekki gefa upp hver sú fjárhæð er.

Félagið Advance fór fram á það við sýslumanninn í Reykjavík að lögbann yrði sett á að Skýrr breytti nafni sínu í Advania, þar sem það þykir of líkt Advance. Sýslumaður féllst ekki á kröfuna.

Óskar Jósefsson, framkvæmdastjóri Advance, segir í samtali við Viðskiptablaðið að félagið hyggst fara með málið fyrir dómstóla og krefjast þess að óheimilt verði að bera nafnið Advania.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.