Nafni Verzlunarmannafélags Reykjavíkur verður breytt í VR. Í tilkynningu félagsins kemur fram að gamla nafnið er barn síns tíma en í dag starfar aðeins um fimmtungur félagsmanna við verslun, og starfssvæðið nær frá Akranesi til Vestmannaeyja. Því var efnt til opinnar samkeppni um nýtt og lýsandi nafn fyrir félagið.

Um 1.000 tillögur bárust í samkeppnina og var rúmur þriðjungur þeirra ýmiss konar útfærslur á skammstöfuninni VR. Það er mat dómnefndar að í þeirri lausn felist ákveðin samfella milli fortíðar og framtíðar félagsins undir nafni sem allir félagsmenn geta fylkt sér undir. Nýja nafnið er því skammstöfunin VR en henni hefur verið fengið nýtt inntak; Virðing og réttlæti, tvö mikilvægustu verkefnin á sviði félagsins.

Dómnefnd skipuðu Gunnar Páll Pálsson, formaður VR, Kristín Sigurðardóttir, forstöðumaður samskipta- og þróunarsviðs VR auk rithöfundanna Gerðar Kristnýjar og Andra Snæs Magnasonar.