Fjármálaeftirlit (Department of Financial Services, DFS) New York fylkis í Bandaríkjunum hyggst gera starfsemi fyrirtækja sem versla með rafmyntir leyfisskylda.

Í tilkynningu DFS kemur fram að ætlunin sé að tryggja öryggi neytenda, koma í veg fyrir peningaþvætti og tryggja almennt öryggi í viðskiptum með rafmyntir. DFS hefur auglýst eftir umsögnum um reglurnar og hefur almenningur og fyrirtæki 45 daga til að skila inn umsögnum.

Nafnleyndin úr sögunni

Sem dæmi um kröfur fyrir leyfisveitingu til að stunda viðskipti með rafmyntir þurfa leyfisskyldir aðilar að halda skrá yfir nöfn og heimilisföng allra viðskiptavina sinna, auk þess sem þeir munu þurfa að hafa starfandi öryggisfulltrúa og regluvörð til að tryggja að skilyrðum leyfisveitingunnar sé fullnægt.

Fyrir vikið er útilokað að fyrirtæki sem versla með rafmyntir í fylkinu geti tryggt nafnleynd viðskiptavina sinna. Nafnleynd hefur verið talið eitt höfuðeinkenni flestra rafmynta.

Reglurnar eru að ýmsu leyti nokkuð líkar þeim sem gilda um hefðbundin fjármálafyrirtæki. Þar eru til dæmis gerðar kröfur um að tryggt sé að viðskiptavinir geti gengið að bandaríkjadölum sem tryggingu komi eitthvað fyrir rafmynt sem er í vörslu leyfisskylds aðila.

Reglurnar byggja á eins árs undirbúningsvinnu DFS sem hóf að rannsaka starfsemi og starfsumhverfi fyrirtækja og einstaklinga sem stunda viðskipti með rafmyntir.