*

miðvikudagur, 21. apríl 2021
Innlent 28. febrúar 2021 15:04

Nágrannar geti verið fasteignagalli

Samkvæmt nýlegum dómi Landsréttar taldist fasteign haldin galla þar sem seljendur greindu ekki frá samskiptavanda við nágranna.

Ritstjórn
Hildur Ýr Viðarsdóttir er hæstaréttarlögmaður sem sérhæfir sig m.a. í fasteignakauparétti.
vb.is

Erfiðir nágrannar geta talist fasteignagalli og seljanda fasteignar ber að upplýsa kaupanda um slíkt, en þetta kemur fram í aðsendri grein Hildar Ýrar Viðarsdóttur, hæstaréttarlögmanns og meðeiganda á Landslögum, í Viðskiptablaðinu sem kom út á dögunum.

„Samkvæmt nýlegum dómi Landsréttar í máli nr. 726/2019 taldist fasteign haldin galla þar sem seljendur greindu ekki frá miklum og alvarlegum samskiptavanda í fjöleignarhúsinu sem hin selda fasteign var í," skrifar Hildur Ýr.

Fram kemur að kaupandi fasteignarinnar hafi haldið eftir 1 milljón króna af kaupverði fasteignarinnar, enda hafi hún talið að vart væri hægt að búa í húsinu vegna erfiðra nágranna. Hefði þetta ástand rýrt verðgildi fasteignarinnar. Seljendurnir kröfðust aftur á móti greiðslu eftirstöðva kaupverðsins í málinu.

„Seljendur upplýstu ekki um hinn mikla og alvarlega samskiptavanda, ekki um líkamsárás, eignaspjöll eða húsfund þar sem samþykkt var að bera íbúa miðhæðar út úr fasteigninni. Landsréttur féllst á að þessi vanræksla seljenda á upplýsingaskyldu sinni teldist galli í skilningi laganna um fasteignakaup. Lagt var til grundvallar mat dómkvadds matsmanns sem taldi verðmætisrýrnun fasteignarinnar nema 5-8% af kaupverði fasteignarinnar vegna þessa ástands í húsinu," skrifar Hildur Ýr.

Hildur Ýr segir alveg ljóst af dómi Landsréttar, sem og skrifum fræðimanna á þessu sviði, að upplýsingar um erfiða nágranna og alvarlegan samskiptavanda séu upplýsingar sem seljanda ber að veita kaupanda við sölu fasteignar.