*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 9. janúar 2017 10:05

Nálega 90% hækkun á ostum

Félag atvinnurekenda segir breytingar á útboði tollkvóta fyrir innflutning landbúnaðarafurða hækka útboðsgjaldið.

Ritstjórn
Ostar
Birgir Ísl. Gunnarsson

Útboðsgjald fyrir kvóta af landbúnaðarvörum sem heimilt er að flytja tollfrjálst inn í landið hefur hækkað mikið milli ára.

Segir Félag atvinnurekenda að í mörgum tilvikum sé um tugi prósenta hækkun. Nefnir félagið 400 króna hækkun á kílóið af ostum sem er um 87% hækkun.

Félagið mótmælir þeirri ákvörðun að útboðið fari nú fram í tveim hlutum sem þeir segja að leiði til hækkunar á útboðsgjaldi.

Frá neytendum í ríkissjóð

„Hærra útboðsgjald mun valda verðhækkun á vörunni miðað við það sem ella hefði orðið og ætla má að rétt um 200 milljónir króna renni úr vösum neytenda í ríkissjóð á fyrri helmingi ársins vegna útboðsgjaldsins,“ segir í frétt FA um málið.

„Tollkvótar eru heimildir til að flytja inn takmarkað magn vöru á engum tolli eða lægri en gildir almennt samkvæmt tollskrá. Tollfrjálsir innflutningskvótar samkvæmt samningi Íslands og ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur frá 2007 eru boðnir upp og kvóta úthlutað til hæstbjóðenda.“

Útboðið einungis til hálfs árs

Í fyrsta sinn á þessu ári gildir úthlutunin til einungis hálfs árs í senn, og fyrir bara helming af því magni sem heimilt er að flytja inn samkvæmt samningnum.

„Útboðsgjaldið hefur farið síhækkandi undanfarin ár. Þetta eru samt miklu meiri hækkanir en í fyrra. Við sjáum líka að umframeftirspurnin eftir vörunum er enn meiri en í fyrra; allt að sjöföld miðað við það magn sem er í boði,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. 

„Það er enginn vafi á því hverjar orsakirnar fyrir þessari hækkun eru. Það er í fyrsta lagi sú ákvörðun atvinnuvegaráðuneytisins að fjölga útboðunum yfir árið. Félag atvinnurekenda varaði við því að það myndi leiða til hækkunar á tollkvótunum.

Hins vegar er 87% hækkunin á verði ostakvótans bein afleiðing ákvæða í búvörusamningi ríkisins og Bændasamtakanna um að hækka almenna tolla á innfluttum ostum. Við höfðum líka varað við því að sú hækkun myndi leiða af sér hækkun á kvótaverðinu og þar af leiðandi á verði til neytenda.“