*

föstudagur, 6. ágúst 2021
Innlent 18. janúar 2017 16:32

Nálega öll félög lækkuðu í dag

Úrvalsvísitalan lækkaði skarpt í kauphöllinni í dag, eða um 1,53% en einungis eitt félag, VÍS, hækkaði í verði meðan flest hinna lækkuðu.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland tók skarpa dýfu í dag með 1,53% lækkun. Viðskiptin voru þó ekki mikil en þau námu tæpum 1,9 milljarði króna.

Stendur vísitalan nú í 1.657,43%, en 30. desember síðastliðinn stóð hún í 1.710,61 stigi og hefur hún lækkað um 3,11% síðan þá.

Aðalvísitala Skuldabréfa stendur nánast í stað í 1.247,08 stigum með 0,01% hækkun. Viðskipti með skuldabréf námu tæpum 2 milljörðum króna.

Vís hækkaði, önnur lækkuðu flest

Einungis bréf eins fyrirtækis hækkuðu í kauphöllinni í dag, það var 1,00% hækkun hjá VÍS, í mjög litlum viðskiptum eða sem námu 550 þúsund krónum. Fæst nú hvert bréf félagsins á 9,13 krónur.

Mest lækkun var á verði bréfa Eimskipafélags Íslands eða 2,13% lækkun í 86 milljón króna viðskiptum en bréf félagsins eru nú verðlögð á 298,00 krónur.

Næst mest lækkuðu bréf Marels hf. eða sem nemur 2,11% í tæpum 207 milljón króna viðskiptum þar sem hvert bréf félagsins fæst á 255,50 stig við lok þeirra.

Icelandair og Reitir í mestu viðskiptunum

Mest viðskipti voru með bréf Icelandair Group, eða sem nam rúmum 282 milljónum króna, og lækkuðu þau um 1,16% niður í 21,30 krónur hvert bréf.

Næst mest viðskipti voru með bréf Reita fasteignafélags eða fyrir 255 milljónir króna. Lækkuðu bréf félagsins um 0,99% og er verð hvers bréf félagsins við lok viðskipta 90,10 krónur.