Eftir kröftuga byrjun flugfélagsins Play á hlutabréfamarkaði nálgast það óðfluga útboðsgengið og er nú, þegar þetta er skrifað, í 20,4 krónum á hlut eða 0,4 til 2,4 krónum yfir útboðsgenginu.

Strax eftir fyrsta dag viðskipta, þann 9. júlí síðastliðinn, voru bréf félagsins komin í 24,6 krónur á hlut eða 23 til 37 prósent yfir útboðsgenginu. Síðan þá hefur félagið lækkað um 17 prósentustig.

Á fyrsta degi viðskipta áður en kauphöllinn opnaði voru skráð viðskipti með bréf félagsins um hálfur milljarður króna á genginu 25 krónur á hlut eða 25 til 39 prósentustigum yfir útboðsgenginu. Sé miðað við útboðsgengið og gengið 25 krónur á hlut hafa bréf félagsins félagið lækkað um 20 til 28 prósentustig.

Útboðsgengi bréfanna var 18 krónur á hlut fyrir áskriftarleið A sem náði til boða undir 20 milljónum króna og 18 til 20 krónur á hlut í áskriftarleið B fyrir boð yfir 20 milljónum.