Krónan hefur styrkst um 15% á árinu og 13% frá því í mars. Viðskiptaafgangur og góðar efnahagshorfur gætu styrkt krónuna áfram til skamms tíma, en áframhaldandi gengisstyrking mun rýra hagvöxt þegar fram í sækir. Krónan gæti verið allt að 10% sterkari en staðist getur til lengri tíma og á hún aðeins eftir um 10% styrkingu til að ná svipuðu ójafnvægi og metið var 2006. Áhrifin af áframhaldandi styrkingu krónunnar á ferðaþjónustuna eru óljós.

Þetta kemur fram í hagspá Greiningardeildar Arion banka til ársins 2019.

Frekari styrking rýrir hagvöxt

Samkvæmt sviðsmyndagreiningum deildarinnar myndi styrking krónunnar árið 2017 og vaxandi kaupmáttur ýta undir aukna innlenda eftirspurn, snúa viðskiptaafgangi í halla einu ári fyrr og gera útflutningsgreinar á borð við ferðamannaþjónustuna ósamkeppnishæfa. Það myndi síðan leiða til minni hagvaxtar, þar sem neikvætt framlag utanríkisviðskipta myndi vega á móti aukinni innlendri eftirspurn.

Gengisstyrkingin myndi síðan draga verðbólguna niður fyrir grunnspá bankans á næsta ári, en þegar krónan fer að gefa eftir fær verðbólgan byr undir báða vængi þegar líður á spátímann, því verðbólgan myndi hækka upp fyrir efri vikmörk og vera í kringum 4,5% í lok spátímans.

Af hverju hefur gengi krónunnar hækkað?

Ýmsir þættir útskýra mikla styrkingu krónunnar undanfarin misseri. Erlend skuldastaða þjóðarbúsins stóð í –1% af VLF á öðrum ársfjórðungi, en staðan hefur ekki verið hagstæð ari í u.þ.b. fimmtíu ár. Lægri hreinar erlendar skuldir þýða minna fjármagnsútflæði vegna vaxtakostnaðar en ella. Efnahagshorfur, bæði til skamms og langs tíma, eru betri en í flestum öðrum þróuðum ríkjum.

Framleiðni vinnuafls á Íslandi vex framleiðnin hraðar en í okkar helstu viðskiptalöndum, sem ýtir undir raungengisstyrkingu. Til skemmri tíma útskýrir vaxtamunur gengissveiflur. Vaxtamunurinn bæði laðar að fjármagn (Seðlabankinn hefur sett bindiskyldu á fjármagnsinnflæði til að hefta vaxtamunaviðskipti) og heldur fjármagni á Íslandi, en bæði styrkja gengið. Það sem hefur síðan haft einna mest áhrif á styrkingu krónunnar eru hagstæð utanríkisviðskipti undanfarin ár, en afgangur af utanríkisverslun nam 160 milljörðum á síðasta ári.

Samkvæmt spá Greiningardeildar fer viðskiptaafgangurinn lækkandi út spátímabilið. Þegar fram í sækir gæti það dregið úr styrkingu krónunnar og mögulega veikt hana. Krónan mun því að öllum líkindum halda áfram að styrkjast á næstu mánuðum, sem mun grafa undan gengi hennar síðar. Miðað við verð á neysluvörum er Ísland síðan á góðri leið með að verða dýrasta land í heimi með áframhaldandi styrkingu krónunnar. Það bendir til þess að undirliggjandi þættir styðji ekki við áframhaldandi styrkingu.

10% yfir jafnvægisraungengi

Raungengi krónunnar miðað við laun er 34% yfir langtímameðaltali, 20% yfir langtímameðaltali miðað við verðlag og er við svipað stig og árið 2007. Samkvæmt spá Greiningardeildar verður raungengið 22% yfir meðaltali miðað við verðlag og 44% yfir meðaltali miðað við laun undir lok spátímans. Telur Greiningardeildin raungengið vera 10% umfram jafnvægisraungengi, sem byggist á framleiðniþróun, viðskiptakjörum, innlendri neyslu og erlendri stöðu þjóðarbúsins.

Áframhaldandi styrking þýðir þá að gengið mun grafa undan viðskiptajöfnuðinum og leiða til gengisveikingar, aukinnar skuldsetningar, minni útflutnings og versnandi væntinga, eins og svo margoft áður í íslenskri hagsögu. Áhrif gengisstyrkingarinnar á ferðaþjónustuna eru síðan óljós.

„Við erum búin að vera að reyna grafa eftir svörum við þeirri spurningu og heiðarlega svarið er einfaldlega: við vitum það ekki,“ sagði Konráð S. Guðjónsson, sérfræðingur hjá Greiningardeild Arion banka, á morgunfundi deildarinnar síðastliðinn þriðjudag.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .