„Ég fór strax eftir menntaskólann í Listaháskóla Íslands til að læra myndlist en ég fann það strax frá fyrsta ári að ég vildi vinna í einhverju í kringum myndlist, ekkert endilega að gera hana,“ segir Auður Jörundsdóttir en hún er ein af tveimur framkvæmdastjórum (e. director) hjá i8 gallerí við Tryggvagötu. Galleríið hefur 20 listamenn á sínum snærum og hefur verið starfrækt í tæplega 19 ár en Auður hóf störf hjá galleríinu árið 2005 eftir útskrift úr Listaháskólanum.

„Þá vorum við þrjár að vinna þar og maður var í raun settur í allt. Þetta var mjög fjölbreytt starf, sem þetta er vissulega ennþá. Þá kynntist ég öllum þessum listamönnum sem við erum að vinna með og vann mikið með þeim í að setja upp sýningar o.fl. Ég hélt áfram í þessu í þrjú ár þar til að ég fór til Edinborgar að læra arkitektúr. Þar kláraði ég B.A. gráðu, en þetta var eitthvað sem mig hafði alltaf langað til að prófa og ákvað því að kýla á það.“

Auður segir að margt hafi breyst í starfsemi i8 þegar hún hóf aftur störf þar árið 2012. „Við vorum á nýjum stað, með aðra listamenn og síðan bættust nokkrir starfsmenn við, en við erum sex að vinna hér núna. Starfsemin orðin sérhæfðari sem þýðir að við getum sinnt listamanninum miklu betur, en það er kannski helsti munurinn. Það sem skiptir mestu máli í þessari starfsemi er að vinna náið með listamanninum.

Í dag erum við með jafnmarga listamenn en helmingi fleiri starfsmenn og stærra húsnæði og því höfum við aðeins meiri kraft til að sinna starfi okkar.

Umboðsmaður listamanna

Í rauninni er hægt að líta á gallerístarfsemina þannig að við séum eins konar umboðsskrifstofa fyrir myndlistarmenn en svo erum við líka framleiðslufyrirtæki að mörgu leyti. Þannig að þetta er mjög fjölbreytt starfsemi – við erum með allt frá málverkum eftir Eggert Pétursson sem hægt er að hengja upp á vegg, yfir í eitthvað örlítið flóknara þar sem við sjáum alfarið um framleiðslu á verkinu. Þetta er mjög fjölbreytt, allt frá vídeóframleiðslu til skúlptúra og innsetninga.“

Á ensku er Auður titluð sem director hjá i8 en stöðuna mætti þýða sem nokkurs konar framkvæmdastjórastöðu. „Það tíðkast í galleríheiminum að það eru oft eigendur og síðan einn eða fleiri „director“ sem starfa undir honum í framkvæmdastjórastöðu. Við tölum oftast bara um starfsmenn i8 og reynum ekki að flækja þetta of mikið. Í hinum alþjóðlega galleríheimi þýðir þetta í raun að þú sért manneskja sem er í stjórnunarstöðu – í umsjón með ýmsa hluti innan rekstursins. Við erum með nokkuð skipt svið innan gallerísins. Við Börkur [Arnarson, eigandi i8] sjáum einna helst um viðskiptahliðina en ég sé t.d. að mestu leyti um aðkomu okkar að listamessum sem er mjög stór hluti af því sem við gerum.“

Nánar er rætt við Auði í blaðinu Áhrifakonur sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .