Félag atvinnurekenda (FA) hefur sent Alþingi umsögn um frumvarp Vilhjálms Árnasonar og fleiri þingmanna um afnám ríkiseinkasölu á áfengi. FA kveðst fagna þeirri viðleitni flutningsmanna frumvarpsins til að auka frjálsræði í viðskiptum með áfengi. Jafnframt fagnar félagið þeirri afstöðu sem fram kemur í frumvarpinu og greinargerð þess um að efla eigi forvarnir gegn misnotkun áfengis.

Alvarlegir annmarkar

Hins vegar kemur fram í umsögn FA að það telji nálgun frumvarpsins of þrönga. Á því séu alvarlegir annmarkar sem hafi í för með sér að verði það samþykkt óbreytt muni það á sumum sviðum þýða afturför hvað varði aðgengi neytenda að áfengi. Telur félagið jafnframt að frumvarpið myndi hafa í för með sér afar íþyngjandi breytingar fyrir bæði framleiðendur og innflytjendur áfengis, sem á endanum myndu koma niður á samkeppni, fjölbreytni, vöruframboði og verði á áfengismarkaði.

Leggur félagið því til að frumvarpið verði ekki samþykkt óbreytt, heldur verði málið tekið upp að nýju þar sem horft yrði til mun fleiri þátta. Markmiðum um aukið frjálsræði í viðskiptum með áfengi verði ekki náð fram nema á grundvelli miklu breiðari endurskoðunar á lagagrundvelli sölu- og markaðssetningar á áfengum drykkjum.

Vinnur gegn nýliðun og fjölbreytni

FA telur að órökrétt sé að færa smásölu áfengis út í matvöruverslanir án þess að afnema um leið núverandi bann við áfengisauglýsingum. Með frumvarpinu sé lagt til að færa smásölu áfengis úr einokunarumhverfi í fákeppnisumhverfi matvörumarkaðarins. Gera megi ráð fyrir að fáir stórir aðilar á matvörumarkaðnum muni ráða miklu um hvaða vörur seljist. Vegna auglýsingabannsins nytu framleiðendur og innflytjendur ekki lengur þess jafnræðis sem ÁTVR hefur verið skyldað til að viðhafa gagnvart birgjum, en ættu hins vegar möguleika á að kynna vörur sínar sjálfstætt fyrir neytendum.

FA telur að þetta kæmi sérstaklega hart niður á framleiðendum sem reyni að koma nýjum vörum á markað. Þetta atriði myndi vega á móti meintum jákvæðum áhrifum frumvarpsins og til dæmis halla verulega á hagsmuni smærri brugghúsa á landsbyggðinni.

Mismunun og misskilningur

Í umsögninni kemur einnig fram að FA telji engin málefnaleg rök fyrir því að mismuna áfengistegundum með því að loka sterkt áfengi á bak við eða undir búðarborðum. Slík breyting sé afturför og kæmi ekki síst niður á hagsmunum innlendra framleiðenda sterkra drykkja, sem séu háðir því að koma vöru sinni á innanlandsmarkað áður en horft sé til útflutnings.

Þá segir að misskilnings gæti í frumvarpinu um hverjir standi skil á áfengisgjaldi til ríkisins. Það séu innflytjendur og framleiðendur en ekki ÁTVR. Samkvæmt núgildandi fyrirkomulagi standi birgjar skil á áfengisgjaldi tvisvar í mánuði og ÁTVR greiði vörurnar sömuleiðis skilvíslega tvisvar í mánuði. Á almennum smásölumarkaði sé hins vegar algengt að birgjar veiti smásölunni gjaldfrest í allt að 60 daga. Ef þeim sé engu að síður gert að greiða áfengisgjaldið strax, hafi það gífurlega neikvæð áhrif á sjóðstreymi og rekstrarhæfi, ekki síst smærri fyrirtækja.

Þá telur FA tillögur frumvarpsins um hvaða verslanir megi selja áfengi og hverjar ekki séu tilviljanakenndar og óljósar. Einnig sé óraunhæft að lögin taki gildi um áramót þar sem hún þurfi talsvert lengri aðlögunartíma.

Umsögnina í heild sinni má lesa hér .