Nám í verðbréfaviðskiptum, sem er undirbúningur til prófs í verðbréfaviðskiptum, hefst hjá Endurmenntun Háskóla Íslands þann 6. september næstkomandi.

Námið er hugsað fyrir starfsfólk fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóða, fjármálastjóra fyrirtækja, fjárfesta og aðra sem hafa áhuga á verðbréfaviðskiptum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Endurmenntun Hí.

Þeir sem staðist hafa próf í verðbréfaviðskiptum geta skv. lögum haft umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við viðskipti með fjármálagernigna fjármálafyrirtækja sem og verið framkvæmdastjórar í verðbréfa-, fjárfestingar- og hlutabréfasjóðum.

Prófin einungis hjá Endurmenntun

Sérstök prófnefnd er starfandi á vegum viðskiptaráðuneytisins sem útbýr prófin í verðbréfaviðskiptum og leggur línurnar fyrir uppbyggingu námsins.

Þessi prófnefnd hefur nú falið Endurmenntun að annast framkvæmd prófanna, fyrir hönd nefndarinnar, og taka því allir prófin þar óháð því hvar þeir sækja námið.

Alls er um 10 próf að ræða, þrjú úr I. og II. hluta en fjögur próf í III. hluta.

Reynslumiklir kennarar og upptökur á netinu

Kennarar í verðbréfaviðskiptanáminu koma frá lagadeild og viðskiptafræðideild Háskóla Íslands svo og frá ýmsum fjármálafyrirtækjum.

„Allir búa þeir yfir víðtækri þekkingu og reynslu sem á að nýtast nemendum,“ segir í tilkynningunni.

Gestafyrirlesarar sem hafa sértæka þekkingu á fjármálamarkaðnum, hérlendis og erlendis, miðla einnig af reynslu sinni.

Nemendum stendur til boða val um að sækja tíma hjá Endurmenntun eða nýta kosti fjarnáms þegar það hentar betur. Mögulegt er að hlusta á upptökur úr hverri kennslustund ásamt því að sjá glærur á lokuðu svæði námsins.

„Þessi valkostur getur sparað tíma og hentar vel t.d. þeim nemendum sem ferðast mikið eða eiga ekki heimangengt,“ segir í tilkynningunni.

Í þriðja hluta námsins verða sérstakir dæmatímar utan skipulegrar stundatöflu í „Helstu tegundir verðbréfa og gjaldeyrir” en sá þáttur hefur reynst þyngsti hlutinn.

Tekið er við skráningu í námið á heimasíðu Endurmenntunar, www.endurmenntun.is allt til 6. september.