Næsta haust hefst kennsla í námi til stúdentsprófs í tölvuleikjagerð í nýjum menntaskóla á Ásbrú. Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis, segir að svara bæði ákalli atvinnulífsins eftir vel menntuðu og sérhæfðu starfsfólki og áhuga ungs fólks á menntun til starfa í skapandi greinum.

„Það tók sannarlega sinn tíma að ná námi í tölvuleikjagerð í gegn. Það er búið að taka rúm fjögur ár að glíma við kerfið. Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra tók af skarið og sýndi þessu góðan skilning. Við höfum verið að vinna þetta með Samtökum iðnaðarins, SVÞ , Samtökum leikjagerðafyrirtækja, CCP og fleirum. Það var kallað eftir þessari námsbraut á framhaldsskólastigi. Þetta er svolítið dæmigert um hvað við erum miðstýrð og það hefur gert það að verkum að nemendur finna sig ekki í skólakerfinu og hætta námi á menntaskólastigi. Atvinnulífið er á fleygiferð en kerfið er ótrúlega svifaseint. Fyrir vikið myndast gap á milli skóla og atvinnulífs. Það er búið að vera 35-38% flótti nemenda úr framhaldsskólum. Að mínu mati á að gera námskerfið frjálsara og leyfa skólunum að ráða þessu sjálfir. Aðhald fá þeir úr atvinnulífinu og háskólum. Það væri vænlegra til árangurs fyrir alla aðila,“ segir Hjálmar.

Svara ákalli atvinnulífsins

„Margt ungt fólk hefur ekki fundið svar við þeirri þörf sinni að búa til eitthvað skapandi. Markmið okkar er að bjóða upp á nám í tölvuleikjagerð sem svarar bæði ákalli atvinnulífsins eftir vel menntuðu og sérhæfðu starfsfólki og áhuga ungs fólks á menntun til starfa í skapandi greinum. Við erum rétt að byrja að auglýsa þetta nám og það linnir ekki látum. Það eru gríðarlega sterk viðbrögð og mikil eftirspurn. Þetta er nám á menntaskólastigi en við erum samt að fá fólk á öllum aldri. Við erum að skoða frekari úrlausn til að geta svarað þörfum eldri krakka. Þetta er hluti af stærri mynd sem við köllum „ Game Park Iceland “. Eitt skref er að mennta fólk í leikjagerð og snýst það fyrst og fremst um skapandi hugsun. Næsta skref er að þegar nemendur ljúka sínu námi hjá okkur fari þeir í háskólanám. Við erum þegar í samstarfi við norskan háskóla sem er að bjóða upp á háskólanám í tölvuleikjagerð. Nemendur geta líka komið í frumkvöðlasetur fyrir leikjagerð hér hjá okkur,“ segir Hjálmar.

Virkja mannauðinn

Hann bendir á að í Gautaborg hafi verið starfrækt undanfarin áratug sambærilegt frumkvöðlasetur og hefur það skilað mjög góðum árangri. Þar hafa orðið til yfir 100 kennitölur fyrirtækja í tölvuleikagerð og 500 störf.

„Með þessu námi í tölvuleikjagerð erum við að virkja mannauðinn. Þetta er spennandi geiri. Tölvuleikjabransinn er að velta gríðarlegum fjármunum, meiri en t.d. kvikmyndageirinn,” segir Hjálmar.

Það er mikið um að vera hjá Keili og fjölbreytt nám í boði. Hjálmar segir að frá upphafi hafi skólinn einsett sér að byggja upp námsmannasamfélag þar sem boðið er upp á vandað nám með áherslu á nýstárlega kennsluhætti og fyrsta flokks aðstöðu. Háskólabrú Keilis býður upp á nám fyrir einstaklinga sem hafa ekki lokið stúdentsprófi og uppfylla nemendur að loknu náminu inntökuskilyrði í háskóla hérlendis og erlendis. Boðið er upp á staðnám og fjarnám með og án vinnu. Keilir er eini skólinn sem býður upp á aðfaranám í samstarfi við Háskóla Íslands og gildir námið til inntöku í allar deildir HÍ.

Yfir þrjú þúsund útskrifast

„Við erum búnir að útskrifa yfir þrjú þúsund manns síðan skólinn var stofnaður fyrir ellefu árum. Við erum búnir að kaupa flugskóla Íslands og erum með tuttugu flugvélar og þrjá flugherma. Helmingur nemenda í flugakademíunni eru erlendir nemendur sem koma hingað til að læra að fljúga við íslenskar aðstæður. Einkaþjálfaranámið í íþróttaakademíunni hefur verið vinsælt og erum að fara í frekari útrás með það nám. Við erum með það á ensku og þýsku og erum að skoða að fara með það á fleiri tungumál. Það gæti orðið langfjölmennasta námsbrautin okkar. Vinsælt er ævintýraleiðsögnin sem við byrjuðum með að beiðni ferðabransans,“ segir Hjálmar.

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Reykjanes, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð og hægt er gerast áskrifandi hér .