Æðstu stjórnendur námarfyrirtækjanna Glencore og Xstrata innsigluðu í dag samning sem felur í sér samningu fyrirtækjanna undir einn hatt. Sameiningin skilar því að upp úr þeim tveimur stígur risi, fjórða stærsta fyrirtæki í náma- og hrávörugeiranum. BHP Billiton, Vale of Brazil og Rio Tinto eru stærri. Markaðsverðmæti sameinaðs fyrirtækis mun nema 90 milljörðum dala, jafnvirði rúmra 11 þúsund milljarða íslenskra króna.

Bæði fyrirtækin eru með höfuðstöðvar sínar í Sviss, Glencore í Baar og Xstrada í borginni Zug. Þar opnaði Actavis nýjar höfuðstöðvar á síðasta ári.

Hluthafar beggja fyrirtækja eiga eftir að samþykkja samrunann. Ef áætlanir stjórna fyrirtækjanna ganga eftir verður Mick Davis, forstjóri Xstrata, forstjóri sameinaðs fyrirtækis og Ivan Glasenberg, forstjóri Glencore, aðstoðarforstjóri .

Í netútgáfu breska viðskiptablaðsins Financial TImes segir um samninginn í dag að um stórtíðindi sé að ræða sem nái út fyrir námaheiminn og vísar til þess að við sameiningu fyrirtækjanna BHP og Billiton árið 2001 hafi verið ýtt úr vöru hrinu fyrirtækjasamruna.